133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

raforkuverð til garðyrkjubænda.

150. mál
[15:24]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. iðnaðarráðherra um lækkun á raforku til garðyrkjuframleiðslu og hvort til skoðunar sé í ráðuneytinu að mæta brýnni þörf garðyrkjunnar fyrir ódýrara rafmagn og þá sérstaklega í tengslum við þau raforkulög sem tóku gildi á sínum tíma.

Það er hægt að halda því fram að ríkisvaldið hafi brugðist þessari gjaldeyrissparandi hollustugrein á síðustu árum og býr sú stóriðja sem grænmetisframleiðslan er að mörgu leyti við miklu lakari kjör en hin hefðbundna stóriðja í kaupum sínum á raforku sem liggur greininni algerlega til grundvallar. Framleiðsla á grænmeti og blómum byggist að miklu leyti á notkun á rafmagni og hefur framleiðsla garðyrkjubænda margfaldast eftir að þeir tóku í sína þjónustu lýsingu af ýmsu tagi.

Það var til að mynda mjög sláandi frétt á dögunum þar sem fram kom að garðyrkjubóndi einn á Flúðum borgar 3 millj. á mánuði í rafmagn, 3 millj. fyrir ylræktarstöð sína á mánuði. Þar segir að fyrir 10 árum hafi garðyrkjubændur lýst miklu minna en nú noti þeir margfalt rafmagn og uppskeri að sjálfsögðu margfalt meira. Uppskerutíminn er miklu styttri og þeir ná að framleiða miklu meira, og fá betri vöru. Þess vegna er svo brýnt sem raunin er að mæta þörf garðyrkjunnar fyrir ódýrara rafmagn.

Raforkuverðið á, virðulegi forseti, að mínu mati að færa eins langt niður og hægt er. Garðyrkjan er gjaldeyrissparandi hollustugrein. Hún er sannkölluð græn stóriðja. Það er ósanngjarnt að grein sem á svo mikið undir raforkunni og raforkuverði skuli lúta svo ósanngjörnum kjörum samanborið við erlenda stóriðju í landinu. Í leiðinni er verið að skekkja framleiðslustöðu grænmetis verulega í samanburði við innflutta vöru. Besta leiðin til að hlúa að greininni og byggja undir hana er að bjóða ódýrt rafmagn. Því spyr ég hæstv. ráðherra þeirrar spurningar sem hér er lögð fram.

Það verður að mínu mati, virðulegi forseti, að finna leið til að lækka raforkuverðið. Annars lendir garðyrkjuframleiðslan í enn þá meiri vanda en hún er í nú og greininni hrakar. Við eigum að byggja undir greinina, sérstaklega í ljósi breyttra laga eins og ég nefndi áðan, þannig að heilsársframleiðsla á grænmeti komist í betri farveg. Þau tímamót sem mundu felast í því að lækka raforkuverðið til garðyrkjubænda mundu skjóta mjög stoðum undir greinina. Það væri t.d. fróðlegt að heyra hjá hæstv. iðnaðarráðherra, ef hann hefði á hraðbergi, hve mikill munur er á raforkuverði til grænmetisframleiðenda og hefðbundinnar stóriðju.