133. löggjafarþing — 62. fundur,  30. jan. 2007.

vegalög.

437. mál
[15:35]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú erum við eiginlega komin út í umræður um samgönguáætlun sem ég bíð spenntur eftir að fá tækifæri til þess að taka þátt í og hafa framsögu um.

Varðandi rannsóknaþróun vil ég vekja athygli hv. þingmanns á 23. gr. frumvarpsins sem við erum að fjalla hér um, en í skýringu við þá grein segir, með leyfi forseta:

„Í gildandi vegalögum er kveðið á um að a.m.k. einum hundraðshluta af mörkuðum tekjum til vegagerðar skuli varið til rannsókna á sviði vega- og gatnagerðar. Mikilvægi þess að unnið sé að rannsóknum og framþróun á þessu sviði er síst minna nú en var við gildistöku þeirra laga. Er því lagt til að þessi starfsemi verði efld enn frekar“ — þetta er hin pólitíska stefnumótun af minni hálfu — „með því að hækka framlagið í 1,5% af mörkuðum tekjustofnum. Jafnframt er lagt til að felld verði niður bein tilvísun í áður gildandi lög um fjáröflun til vegagerðar.“

Hér getur hv. þingmaður áttað sig á því hver áherslan er af minni hálfu og af hálfu ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna. Áherslan er á að auka rannsóknir og þróun um 50% frá því sem verið hefur á undanförnum árum. Ég tel því að við séum á hárréttri leið og vonandi leiða þær rannsóknir m.a. til þess og sýna fram á að við getum búið til betri vegi.

Ég er alveg sannfærður um að allar rannsóknir sýna fram á að við þurfum að velja vegstæði mjög vandlega. En það er ekki alltaf alveg gefið að það eigi að vera jarðgöng. Við getum búið til góða vegi undir berum himni en við þurfum hins vegar að velja skynsamlega kosti.