133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

541. mál
[15:41]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get fallist á það með hv. þingmanni að það væri út af fyrir sig ágætt. Ég er sannarlega ekki á móti því að það verði meiri umfjöllun í fjölmiðlum um málefni innflytjenda og stöðu þeirra, en skýringin sem hv. þingmaður gefur á því er ekki boðleg. Þetta voru aðdróttanir í garð ritstjórna blaðanna og í garð blaðamanna. Hv. þingmaður sagði að ástæðan fyrir því að umfjöllunin væri ekki meiri væri sú að fjármagnseigendur eða eigendur fjölmiðla vildu ekki slíka umfjöllun vegna þess að þeir vildu fá þetta ódýra vinnuafl hingað til landsins. Það var það sem hv. þingmaður sagði. (MÞH: Er eitthvað að því?) Þá er hv. þingmaður beinlínis að segja að eigendur þessara fjölmiðla ritstýri fjölmiðlunum, (Gripið fram í: Já.) segja þeim fyrir verkum hvað þeir megi fjalla um og hvað ekki. Þetta eru alvarlegar aðdróttanir í garð blaðamanna og fjölmiðla hér á landi.

Hv. þingmaður kom sér líka hjá því að svara því sem ég spurði hann um sem fram kom í svari hæstv. félagsmálaráðherra til mín og fram kom í nefndinni sem þingmaðurinn sat ekki í, t.d. frá ASÍ, að áætla megi að fjöldi erlendra verkamanna eða starfskrafta hingað til lands hefði verið álíka mikill og raun ber vitni — og jafnvel meiri var sagt — jafnvel þótt aðlögunin hefði verið nýtt, en þessir starfsmenn hefðu þá komið í gegnum starfsmannaleigurnar. Það vita allir og hv. þingmaður líka að undirboðin hafa helst viðgengist í gegnum starfsmannaleigurnar, þar hefur verið farið illa með verkafólk og þurft hefur að leiðrétta kjör í 50–70% tilvika hjá erlendum verkamönnum í gegnum starfsmannaleigurnar.

Hefði hv. þingmaður heldur viljað fá þetta vinnuafl í gegnum starfsmannaleigurnar en í gegnum beint ráðningarsamband við vinnuveitendur?