133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

280. mál
[10:28]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Hér er lögð til hvílu afleit hugmynd sem átti að verða bjargráð í byggðamálum en er kannski besti vitnisburðurinn um það umkomuleysi sem umlukt hefur byggðamálin í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Á meðan varnarsvæðunum á landsbyggðinni blæðir út er ríkisstjórnin í svona leikfimi með byggðamálin, svona glannaskap eins og hér um ræðir. Það tók 2–3 ár að berja þetta mál til þess sem hér er lagt til, að það verður ekkert úr því. Því ber að sjálfsögðu að fagna. Þetta var afleitt mál og hér er það lagt til hvílu. En það er góður vitnisburður eða öllu heldur grafalvarlegur vitnisburður um óreiðuna, uppnámið og uppgjöf þessarar ríkisstjórnar í byggðamálum. Það er að sjálfsögðu afleit staða í þeim málum sem áttu að verða hvað mikilvægust þegar upp var lagt í vegferðina. Þess vegna er það fagnaðarnefni að þessi sameining verði að engu.