134. löggjafarþing — 4. fundur,  5. júní 2007.

afgreiðsla mála í allsherjarnefnd.

[14:28]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Að mínu viti er nákvæmlega ekkert athugavert við það að afgreiða þessi tvö frumvörp með þeim hætti sem meiri hluti allsherjarnefndar og stjórnarmeirihlutinn hefur mælt fyrir, þ.e. að afgreiða þingskapalagafrumvarpið sérstaklega og stjórnarráðsfrumvarpið sérstaklega.

Eins og hv. þm. Pétur Blöndal benti á hefði það verið ákaflega ankannalegt fyrir þingið að kjósa til sjávarútvegsnefndar og landbúnaðarnefndar og nokkrum dögum síðar hefðu þeir þingmenn sem kosnir voru í þær nefndir verið slegnir af, vegna þess að þingsköpin kveða á um að þingmenn skuli kosnir til fastanefndanna fyrir allt kjörtímabilið. Og það hefði verið fullkomið klúður og þinginu til vansa ef farið hefði verið að tillögum stjórnarandstöðunnar.

Þessi umræða um þingskapalagafrumvarpið er náttúrlega mjög furðuleg. Stjórnarandstaðan hefur ekki séð ástæðu til að gera neinar efnislegar athugasemdir við það frumvarp. Allar þær efnislegu athugasemdir sem fram koma varða stjórnarráðsfrumvarpið og slíkar athugasemdir eiga að koma fram í umræðum um það frumvarp, þ.e. um stjórnarráðsfrumvarpið en ekki um frumvarp til laga um þingsköp. Það hefur verið gert í umræðunni og það hefur verið gert í hv. allsherjarnefnd og það mun verða gert þegar allir þeir gestir sem stjórnarandstaðan hefur óskað eftir að verði kallaðir fyrir nefndina koma á okkar fund.

Ég vil síðan nefna að í umræðu um það ágæta frumvarp í gær, herra forseti, lýsti formaður Framsóknarflokksins því yfir við lok umræðunnar í andsvari við mig að þessi mál væru auðvitað ekkert svo stór mál. Þess vegna finnst mér framganga þingflokksformanns Framsóknarflokksins í þessu máli og í þessum ræðustóli í umræðu í dag ansi furðuleg í ljósi þeirrar afstöðu sem fram kom í máli formanns Framsóknarflokksins við lok umræðunnar í gær. Ég held að það væri heillavænlegra fyrir þingmenn Vinstri grænna og Framsóknarflokksins að taka málflutning fulltrúa Frjálslynda flokksins í þessu máli sér til fyrirmyndar. Hv. þm. Jón Magnússon hefur lýst því yfir að Frjálslyndi flokkurinn muni greiða fyrir afgreiðslu þessa máls og það er skynsamleg afstaða sem framsóknarmenn og vinstri grænir ættu að taka sér til fyrirmyndar þannig að við getum greitt fyrir þingstörfum og kosið í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd svo að þær nefndir fari að vinna. Það er ekki vanþörf á og allar tafir á kosningu þeirra nefnda verða að skrifast á reikning stjórnarandstöðunnar.