134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

orkusala til álvers í Helguvík.

[10:34]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir að taka þetta mál upp á hinu háa Alþingi. Það er rétt að stjórn Orkuveitunnar hefur samþykkt þennan samning um orkusölu til Helguvíkur. Fulltrúar Samfylkingarinnar þar inni studdu ekki þann samning svo að það liggi alveg fyrir hér og ég vil í upphafi máls míns ítreka það að í þessari umræðu er mjög mikilvægt að bæði stjórnmálamenn og orkufyrirtæki og auðvitað almenningur í landinu geri sér grein fyrir því að þetta er ekki ávísun á að framkvæmdir hefjist þótt orkufyrirtækin vilji það og Norðurál auðvitað líka. Það eru mjög margir þröskuldar sem þarf að fara yfir í þessu ferli. Það þarf að fara í umhverfismat, það þarf að ljúka skipulagsmálum, það þarf að fara í hin lögbundnu ferli og ég vil helst tala um þau sem eru á minni könnu í umhverfisráðuneytinu. Svo má heldur ekki gleyma því í þessari umræðu, af því að við erum að tala um orkusölu til álvera, að álfyrirtækin geta ekki gert út á losunarkvóta eftir 2012. Það liggur alveg fyrir. Engin loforð liggja fyrir um það. Menn sem eru í bisness hljóta að gera sér grein fyrir hvað það þýðir þannig að ég tek mjög skýrt fram í þessari umræðu að þó að hér hafi verið skrifað undir samning eru í honum mjög margir fyrirvarar um hin lögbundnu ferli sem þurfa að fara fram um aðkomu almennings að því og hvernig þeim þarf að ljúka. Fólk getur kynnt sér þá.

Við skulum hætta að tala þannig að þó að fyrirætlanir séu um framkvæmdir, fyrirætlanir um orkunýtingu eða byggingu stóriðju, um leið og það sé sagt sé það orðið.