134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

orkusala til álvers í Helguvík.

[10:51]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ekki ætla ég að kveinka mér undan þessari umræðu heldur fagna henni því hún er góð og dregur mjög skýrar línur strax í upphafi þessa kjörtímabils.

En ég vil biðja hv. þingmenn að hefja nú ekki þessa vegferð á því að gruna alla um svik og óheiðarleika. Að það hljóti allir að hafa óhreint mjöl í pokahorninu og ekkert gott standi til. Ríkisstjórnin hefur samþykkt að hefja vinnu við annan áfanga rammaáætlunar. Um það eiga ráðuneyti iðnaðar- og umhverfismála náið samstarf. (Gripið fram í.) Þannig var það ekki á fyrri kjörtímabilum. Það er engin togstreita á milli mín og hæstv. ráðherra Össurar Skarphéðinssonar um þessi mál.

Vegna þess að hingað koma þingmenn Vinstri grænna upp og tala sýknt og heilagt um sjálfbæra þróun eins og í henni sé aðeins einn þáttur umhverfisverndar og náttúruverndar þá skulum við bara fara yfir það.

Sjálfbær þróun snýst um haldbæra þróun í umhverfismálum, félagslega þróun og efnahagslega þróun. Þar sem þetta þrennt mætist má tala um sjálfbæra þróun. Hún er samfélagsmál. Hún er jafnaðarmál og hún snýst um haldbæra þróun til framtíðar. Það er ekki þannig að hv. þingmenn Vinstri grænna hafi keypt sér einkaleyfi á túlkun á sjálfbærri þróun, hvorki í pólitískri umræðu hér á landi né annars staðar.