134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

friðlandið í Þjórsárverum og verndun Þjórsár.

6. mál
[19:10]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað er það þannig þegar haldnar eru ræður sem ná að vera átta mínútur að reikna má með að eitthvað skolist til þegar menn leggja við eyrun. Þó er það þannig að ég sagði skýrt og greinilega að stjórn Landsvirkjunar hefði lagt til hliðar áform. Það jafnast ekki á við að segja að hætt hafi verið við öll áform en þau hafa verið lögð til hliðar. Það gerðist meðan ég var stjórnarmaður þar.

Í öðru lagi, hvað varðar hagkvæmnisrökin, þá benti ég í ræðu minni á að erfitt væri að finna hagkvæmari kost þegar horft væri til umhverfismála. Það var það sem ég átti við. Ég tel að það hafi komið nokkuð skýrt fram.

Í þriðja lagi, hvað varðar forsætisráðherra og orð hans um að ekki hafi verið tekin nein sérstök ákvörðun um þetta, þá liggur fyrir að ekki verður ráðist í Norðlingaölduveitu á kjörtímabili þessarar ríkisstjórnar og að unnin verður rammaáætlun sem lögð verði fyrir þingið fyrir árslok 2009 þar sem m.a. verður fjallað um þetta svæði sem og önnur.

Í fjórða lagi hvað varðar spurninguna um eignarnámsheimildirnar þá beindi ég því til iðnaðarráðherra í ræðu minni að farið yrði í að skoða þessi ákvæði í raforkulögunum. Ég tel að þau eigi ekki lengur við. En það ferli sem hefur verið í gangi hefur staðið lengi yfir og er komið langt. Ég tel að það sé ekki ráðlegt að breyta þeim reglum og þeim lögum sem gilda að svo komnu máli. Reyndar beindi ég til hæstv. iðnaðarráðherra og annarra hæstv. ráðherra sem að málinu koma að einnig væri lag á að afnema ríkisábyrgðina. Allt þetta tel ég, hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, að verði til þess að við fáum betra mat á þær fórnir sem við færum þegar við nýtum landið. Það fer saman og verður að fara saman, sú hugsun að nýta landið okkar og um leið að vernda það. Þetta tvennt verður ekki sundur skilið. Það er óábyrgt að ætla að það sé hægt.