134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

friðlandið í Þjórsárverum og verndun Þjórsár.

6. mál
[19:23]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að munnhöggvast um smáatriði hér endalaust en bara svo því sé til haga haldið hefur ekkert komið fram hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur um það hvernig megi ná því markmiði sem hún setur fram um að stöðva virkjanir í neðri hluta Þjórsár. Það ferli er komið mjög langt. Umhverfismati er lokið. Ég sé ekki alveg þær stjórnsýslulegu leiðir sem hægt er að fara til að stöðva málið.

Skipulagsyfirvöld geta vissulega stöðvað málið en þau verða þá að gera það á faglegum grunni og þar sem umhverfismatið liggur fyrir sé ég ekki alveg að þau geti beitt skipulagsvaldinu þegar umhverfismatið er svo skýrt sem það er.

Ég stend algerlega á þeirri skoðun að títtnefnd ummæli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um virkjanir í neðri hluta Þjórsár hafi verið mikilvægur liður í þeim óskemmtilegu hrossakaupum sem áttu sér stað um virkjanir í Þjórsá, hrossakaupum sem gengu út á það að í þessar virkjanir yrði ráðist en ekki í Norðlingaölduveitu, hrossakaupum sem kannski gengu aldrei upp og voru aldrei raunhæf.

Ég held að það sé aðalatriði að við setjum okkur markmið þar sem við getum náð árangri. Ég held að ágætir félagar mínir í stjórnarandstöðu í Vinstri grænum ættu að fara að huga að pólitík sem getur skilað árangri en ekki pólitík sem einungis skilar upphrópunum.