135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[11:12]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var auðvitað ekkert svar hjá hæstv. forsætisráðherra, ekkert svar. Ég spurði: Hverjum hefði dottið það í hug fyrir tveimur árum að málefni sveitarfélaganna yrðu tekin úr félagsmálaráðuneytinu og farið með þau upp í samgönguráðuneyti?

Hæstv. forsætisráðherra sagði einhvern tíma að það væri svo sem ekki vettvangur samgönguráðuneytisins að fjalla um ferjumál í sumar, líklega heyrði það ekkert undir það ráðuneyti. Ég spyr: Heyra sveitarstjórnarmál undir samgönguráðuneytið? Er eitthvað skylt þeim þar? Nei, hæstv. forsætisráðherra, ég held að hér sé hafin með þessari tilfærslu allri — auðvitað var grunnurinn lagður að þessu í vor. Ég geri mér grein fyrir því — en hér er skipulagslaust verið að hringla inni í ráðuneytunum, færa til verkefni án þess að nokkur skýr stefnumörkun sé á bak við það og verkefni sem eiga þar ekki heima.

Mér þykir Sjálfstæðisflokkurinn hafa skipt um skoðun frá því 1989 og 1991 þegar hann stóð gegn því að landgræðsla og skógrækt færu frá landbúnaðarráðuneytinu og taldi þá mikilvægt að hafa það þar. Þá var enginn skógarbóndi til á Íslandi sem þurfti ekki þá þjónustu sem nú er uppi á Mógilsá eða austur á Héraði. Hér hefur því orðið mikil viðhorfsbreyting og hún snýr kannski að því að Sjálfstæðisflokknum er kannski ekkert lengur annt um íslenskan landbúnað sem hefur verið í mikilli sókn og að reisa sig til mikilla verka á svo mörgum sviðum. Honum er kannski sama og hann er tilbúinn að ganga að því með ofurkjörum með Samfylkingunni að nafn landbúnaðarins víki. Ég geri mér grein fyrir þessu af því að ég þekki til. Mörg ráðuneytin hafa átt í miklum erfiðleikum í sumar með sinn mannafla og þær ætlanir sem nú blasa við.

Ég vil biðja hæstv. forsætisráðherra í fullri vinsemd að fara yfir þessi mál á nýjan leik. Hér er skemmdarverk í gangi á mörgum sviðum (Forseti hringir.) sem ekki gengur upp.