135. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2007.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

155. mál
[12:32]
Hlusta

Flm. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Forseti. Ég tel í raun óþarft að fara mjög mörgum orðum um þetta frumvarp um breytingu á lögum nr. 141/2003, um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara, sem hv. þm. Katrín Júlíusdóttir, Ellert B. Schram, Gunnar Svavarsson og Róbert Marshall flytja ásamt mér.

Hv. alþingismönnum er væntanlega vel kunnugt um þau sérréttindi sem lögin færðu þeim umfram þau réttindi sem almennt gerast meðal fólks í landinu. Hin almenna regla í þjóðfélaginu er sú að fólk getur farið á eftirlaun við 67 ára aldur, ráðherra getur hins vegar farið á eftirlaun við 65 ára aldur, sextugur ef hann lætur af ráðherraembætti og reyndar við 55 ára aldur ef hann hefur gegnt embætti í 12 ár. Um alþingismenn gildir hið sama, þeir verða þó að hafa verið á þingi í 16 ár til að geta farið á eftirlaun 55 ára.

Hannes Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, gerði samanburð á kjörum ráðherra, þingmanna og venjulegs fólks í grein sem birtist á vef samtakanna 4. maí 2006. Allar tölur í greininni miðast, eins og lög gera ráð fyrir, við rauntölur eins og þær voru á þeim tíma.

Með leyfi forseta:

„Það tekur þingmann rúm 23 ár að komast í 70% hámark eftirlaunahlutfallsins og ráðherrann tæp 12 ár. Sé miðað við að þingmaður hefji þingmennsku 41 árs þá nær hann hámarksrétti til lífeyris, 330 þús. kr. á mánuði, þegar hann verður 64 ára. Sjóðsfélagi í Lífeyrissjóði verslunarmanna ávinnur sér rétt til 168 þús. kr. lífeyris á sama tíma miðað við nýjar reglur um aldursháða ávinnslu. Miðað við jafna ávinnslu óháð aldri ávinnur sjóðsfélaginn í Lífeyrissjóði verslunarmanna sér 187 þús. kr. rétt til ævilangs, mánaðarlegs lífeyris. Ráðherra sem hefur störf í embætti 53 ára og starfar í þrjú kjörtímabil ávinnur sér lífeyrisrétt sem nemur 592 þús. kr. á mánuði ævilangt. Sjóðsfélagi í Lífeyrissjóði verslunarmanna, sem er jafngamall og með sömu laun, ávinnur sér ævilangan lífeyrisrétt sem nemur 56 þús. kr. á mánuði á sama tíma.“

Herra forseti. Munurinn er tífaldur.

Hv. þingmenn úr öllum flokkum stóðu að þessari lagasetningu en ekki voru allir hv. þingmenn á eitt sáttir og samkvæmt fréttum var deilt um lagasetninguna hér á hinu háa Alþingi, m.a. um réttmæti hennar. Ég held því fram að á síðustu árum hafi ekki verið samþykkt á þinginu lög sem eru jafnóvinsæl og þyki jafnóþörf og -óréttlát á meðal fólksins í landinu. Það finnst mér í rauninni miklu alvarlegra en að deilur hafi verið um málið á meðal hv. þingmanna. Það gleymdist að við erum hér í þessum sölum í umboði fólksins í landinu. Þau störf sem hér fara fram eiga því fyrst og fremst að snúast um hagsmuni þjóðarinnar, nefnilega kjósenda, en ekki þeirra sem tímabundið gegna þingmennsku eða sitja á ráðherrastóli eins og endurspeglast í téðum lögum frá 2003.

Að mínu mati skiptir það afskaplega miklu máli hvernig kjörnir fulltrúar fara með það vald sem þeim er falið. Þeir þurfa að hafa það mjög ofarlega í huga að þeim er falið þetta vald um stundarsakir. Stundum finnst mér eiginlega að fólk sem fer með þetta umboð eigi að vera skelfingu lostið vegna þeirrar ábyrgðar sem það axlar. Í raun má segja að okkur sem hér erum sé trúað fyrir fjöreggi þjóðarinnar, nefnilega að búa til þær leikreglur sem eiga að gilda í þjóðfélaginu. Alla jafna er það svo, en stundum fara hv. þingmenn út af sporinu eins og þegar lög þau sem hér er lagt til að verði breytt voru samþykkt. Þá er um að gera að komast aftur á sporið. Það er hægt með því að samþykkja þetta frumvarp sem gerir ráð fyrir að ráðherrar, alþingismenn og hæstaréttardómarar njóti sömu lífeyrisréttinda og ríkisstarfsmenn og vonandi öll þjóðin í framtíðinni.

Samkvæmt frumvarpinu taka breytingarnar gildi 1. janúar 2008 hvað varðar aðra en þá sem þegar þiggja lífeyri samkvæmt lögunum frá 2003. Jafnframt er lagt til að áunnin réttindi fram til þess tíma haldi gildi sínu. Ég undirstrika að þessi síðastnefndu ákvæði eru sett fram til að komast hjá málalengingum um atriði sem snerta ekki beint það meginatriði sem frumvarpið fjallar um, sem sagt að nema úr gildi þau sérréttindi eða kannski öllu heldur forréttindi í lífeyrismálum sem þessum hópum eru tryggð með lögunum frá 2003. Ástæða þess að ég óttast að athyglin beinist að öðru en þessu meginatriði er m.a. lögfræðiálit sem forsætisnefnd Alþingis fékk í apríl 2005.

Í niðurstöðum þess álits kom m.a. fram samkvæmt frétt Morgunblaðsins 27. apríl 2005, með leyfi forseta, að það „sé varhugavert að hreyfa við lífeyrisréttindum sem þegar hafa öðlast gildi vegna eignarréttarákvæða stjórnarskrárinnar. Jafnframt að rétt og varlegt sé að gefa ákveðinn aðlögunartíma að því er varðar lífeyrisréttindi sem ekki hafa tekið gildi“.

Að lokum tek ég fram að frumvarpið gerir ekki ráð fyrir að breyting verði á eftirlaunakjörum forseta Íslands.

Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til allsherjarnefndar.