135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

almannavarnir.

190. mál
[15:08]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er alveg til í að vera í pollýönnuleik en ég lít hins vegar ekki á það sem við erum að ræða sem neinn leik, ég tel að hér sé um mjög alvarleg mál að ræða. Ég get tekið undir mjög margt sem kom fram í ræðu hv. þingmanns áðan, sérstaklega hvað varðar þann ásetning hv. þingmanns að vilja standa vel að málum er varða björgunarmál og að koma landsmönnum til hjálpar þegar vá steðjar að. Þar er ekki neinn ágreiningur á milli mín og hv. þingmanns. Hins vegar vil ég hafa fullt frelsi til þess að velta upp öllum sjónarmiðum þegar verið er að reifa málið í 1. umr. Það eru fullkomlega gild sjónarmið í þessu sambandi þegar verið er að stofna ákveðið öryggismálaráð sem er nýlunda og hefur ekki verið og ekki heyrt undir almannavarnalög hingað til, það eru alveg gild sjónarmið sem ég hef fært fram af hálfu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Þetta er bara eitt af þeim sjónarmiðum sem þarf að taka til skoðunar og verður að sjálfsögðu tekið til skoðunar í nefndinni.

Varðandi tilgátu hv. þingmanns um að samstarf þurfi ævinlega að vera á forsendum okkar Vinstri grænna og það sé ástæðan fyrir því að við séum ekki aðilar að ríkisstjórninni þá vísa ég því til föðurhúsanna og bendi á hæstv. forsætisráðherra sem ákvað að velja sér samstarfsflokk í þessum efnum, sennilega vegna þess að hann áttaði sig á að það væri auðveldara og þægilegra að ná samkomulagi við þann flokk sem varð fyrir valinu en Vinstri hreyfinguna – grænt framboð, sem er mjög stefnufastur flokkur og leyfir sér að standa á sínum prinsippum en er algerlega fús að ræða málin frá öllum endum og ná samkomulagi og málamiðlunum þegar það er í boði. Þess vegna vona ég að menn teygi sig að einhverju leyti í átt að okkar sjónarmiðum í umræðum um þetta mál í allsherjarnefnd.