135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

almannavarnir.

190. mál
[15:12]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég átta mig alveg á því að við hv. þingmaður erum á öndverðum meiði varðandi ákveðna þætti þessara mála en hann verður að virða mér það til vorkunnar að hér er verið að fara inn á nýja braut, verið er að brjóta nýjar lendur í sjálfu sér og láta þær heyra undir almannavarnalögin, þetta öryggismálaráð er nýjung í lögum. Við þurfum að átta okkur á því að ríkisstjórnin gefur samkvæmt þessu frumvarpi fyrirheit um að setja af stað vinnu við stefnumótun sem varðar innra öryggi ríkisins og innra öryggi ríkisins er auðvitað mál af því tagi sem þær þjóðir sem hafa her láta herina sína annast. (JónG: Við höfum ekki her.) Við höfum ekki her. Ég er ekki að segja að það sé óeðlilegt að þetta hlutverk falli undir þessi lög, ég er alls ekki að segja það, ég er hins vegar að segja að við verðum að átta okkur á því á hvern hátt við útfærum það og við þurfum að mínu mati að útfæra það á þann hátt að það sé algerlega borgaralegt. Þess vegna leyfi ég mér að fara út fyrir landsteinana og segja, af því að það er hluti af innra öryggi ríkisins að tryggja öryggi á höfunum í kringum okkur, að það eigi að vera á okkar forsendum en ekki forsendum þeirra þjóða sem við ætlum að vera í samstarfi við af því að þær hafa her. Við eigum að geta farið í þetta samstarf á okkar forsendum af því að við höfum ekki her og þess vegna þurfum við að tryggja að Landhelgisgæsla okkar, yfirvöld okkar á hafinu, þ.e. siglingamálastjóri, siglingamálastjórn, Póst- og fjarskiptastofnun og allar þær stofnanir sem að þessum málum koma, séu og verði áfram borgaralegar stofnanir þó svo að þær fari í samstarf við þjóðir sem hafa her. Við þurfum að draga þessa línu og hún þarf að vera skýr. Við höfum fulla þörf fyrir að hafa hana skýra af því að við höfum sérstöðu í þessum málaflokki. Ég held að ég hafi málefnaleg rök fyrir því að draga þetta sjónarmið inn í þessa umræðu og hafna því að það sé eitthvað óeðlilegt við að ég komi með það sjónarmið okkar flokks inn í 1. umr. um þetta viðamikla mál.