135. löggjafarþing — 27. fundur,  19. nóv. 2007.

erfðafjárskattur.

206. mál
[15:39]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, með síðari breytingum.

Í fyrsta lagi er lagt til að kveðið verði nánar á um álagningu erfðafjárskatts á fasteignir hér á landi sem eru í eigu erlendra dánarbúa. Ákvæði gildandi laga eru ekki talin nægilega skýr að þessu leyti en í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, verður ekki annað séð en að vilji hafi staðið til þess að sú yrði framkvæmdin.

Raunin hefur hins vegar ekki verið sú vegna óskýrleika laganna. Nauðsynlegt og jafnframt eðlilegt þykir að taka af öll tvímæli um álagningu erfðafjárskatts í slíkum tilvikum og því er þessi tillaga komin fram.

Í öðru lagi er í frumvarpinu ákvæði um hvernig álagningu erfðafjárskatts skuli háttað þegar erfingi afsalar sér arfi eða hafnar arfi þannig að sá hlutur falli til annarra erfingja við skipti. Í slíkum tilvikum er lagt til að ávallt skuli greiða erfðafjárskatt.

Í þriðja lagi er lagt til að verðmæti óbókfærðra eigna og réttinda verði metin samkvæmt almennu markaðsverðmæti við álagningu erfðafjárskatts. Það er gert til að taka af allan vafa um að við mat á hlutabréfum í félögum sem ekki eru skráð á skipulegum verðbréfamarkaði skuli ótvírætt tekið tillit til verðmætis allra fjárhagslegra réttinda félags þó svo að um sé ræða óbókfærðar eignir svo sem aflaheimildir, hugverkaréttindi o.fl.

Að lokum er kveðið á um að kostnaður sem fellur á dánarbú vegna mats á eignum þess skv. 17.–21. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl., skuli koma til frádráttar frá skattstofni dánarbús þegar erfðafjárskattur er ákveðinn og að sama regla skuli gilda um einkaskipti og opinber skipti.

Herra forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.