135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[20:47]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þegar ég kom á þing 1995 varð mér mjög starsýnt á þetta fyrirbæri sem voru óskaplega langar ræður í 2. og 3. umr., sérstaklega um þetta leyti árs, rétt fyrir jól. Hér sátu menn löngum stundum langt fram á nótt, til klukkan þrjú, fjögur, og hlustuðu á óskaplega langhunda. Auðvitað voru einstaka góðar ræður inn á milli en þær týndust. Ég hef margoft bent á að svona fyrirkomulag eyðileggur alla rökræna umræðu vegna þess að þegar maður ætlar að ræða við viðkomandi þingmann veit maður ekki hvort hann verður búinn eftir eina mínútu eða eftir fjóra klukkutíma. Maður getur ekki setið í þingsal allan tímann og beðið. Ég gerði það reyndar einu sinni en Jesús minn, frú forseti, það er mikið á mann lagt. (Gripið fram í: Þú ætlaðir líka bara að vera í fimm ár.) Einmitt. (Gripið fram í.) Ég tel að menn eigi að geta meitlað hugsanir sínar þvílíkt í orð að þeir komi þeim frá sér á 15 mínútum í hæsta lagi og ef þeim tekst það ekki geta þeir komið aftur í ræðustól eins og þessi tillaga gerir ráð fyrir og ég bind miklar vonir við.

En það sem gerðist hér einu sinni var að minni hlutinn á Alþingi beitti meiri hlutann ofbeldi, hann beitti hreinlega ofbeldi með því að tala út í eitt um eitthvert ákveðið mál til þess að fresta einhverju öðru máli og tókst það furðuoft. Ég ætla að vona að menn hætti slíku og það lýðræði fái að ríkja inni á Alþingi að þeir þingmenn eða sá meiri hluti sem þjóðin hefur kjörið og kosið yfir sig fái að ráða með eðlilegum hætti á Alþingi en þurfi ekki að hlusta á einhverjar óskaplegar umræður með því markmiði að ná að stöðva eitthvert mál.