135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[20:52]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er náttúrlega grafalvarleg umræða og ekki ástæða til að henda gaman að henni. En óneitanlega er það svolítið skondið að fulltrúi úr Sjálfstæðisflokki skuli koma hér upp og segja að það gangi náttúrlega ekki að einn flokkur ráði, að einn flokkur ráði í þinginu, í ríkisstjórn. Hver hefur ráðið í ríkisstjórn og hér á þinginu síðan 1991 (PHB: Því miður ekki einn.) annar en Sjálfstæðisflokkurinn. Því miður ekki einn, segir hv. þingmaður. Og hann bætir um betur, því miður réð hann ekki einn, því miður gat hann ekki valtað yfir allt og alla. Við erum ekki að tala fyrir því að einn flokkur ráði. Við erum ekki að tala fyrir því að Vinstri hreyfingin – grænt framboð ráði. Ég er búinn að gera grein fyrir þeim hugmyndum sem við höfum haft og á hvern hátt við höfum teflt þeim inn í nýjan samkomulagsgrundvöll. Við höfum verið að gera grein fyrir því til að reyna að ná samkomulagi og sáttum í þessu mikilvæga máli.