135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[21:23]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður beindi ekki til mín neinni sérstakri spurningu en setti fram athyglisverð sjónarmið. Það er rétt hjá hv. þingmanni að frumvarpið er liður í því að reyna að gera Alþingi fjölskylduvænni og betri vinnustað — ég veit ekki hvort ég vil kalla þjóðþingið vinnustað en menn koma jú þar saman og vinna sín verk. Ég treysti mér ekki til að meta hvort tryggt sé að málfrelsi haldist óskert með 15 mínútna, 20 mínútna eða 25 mínútna ræðutíma, ég hef ekki fullmótaða skoðun á því. Hér er lagt til að hann verði 15 mínútur en það breytir því ekki að nefnd á eftir að fara yfir málið og á þetta ef til vill eftir að mótast enn betur. Við fáum þá hugsanlega einhverjar aðrar hugmyndir. En ég þori ekki að fullyrða að málfrelsi sé tryggt með 15, 20, 25 mínútum nú eða 10 mínútum.