135. löggjafarþing — 40. fundur,  10. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[16:38]
Hlusta

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Ásta Möller) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vissulega fær minni hluti nefndarinnar svigrúm til að gera grein fyrir nefndaráliti sínu en það liggur fyrir, hefur verið lagt fram og því er mjög eðlilegt að framsögumaður meiri hluta fjalli um það málefni, um það álit og tala nú ekki um eins og ég gerði. Ekki síst þar sem það tengdist umsögnum ýmissa umsagnaraðila. Ég greindi frá því á síðasta fundi nefndarinnar að ég teldi ákveðinn misskilning í ákveðinni umsögn gesta, þ.e. frá hjúkrunarfræðingum, og hef svarað formanni félagsins í þá veru.

Það er skýrt í frumvarpinu að yfirstjórn heilbrigðismála á hjúkrunarheimilum og fagleg yfirstjórn er í höndum heilbrigðisráðherra, á því er enginn vafi. Það er engin hætta á því að dregið verði úr faglegri þjónustu af þeim sökum. Það verður óbreytt fyrirkomulag miðað við það sem nú er, eftirlit landlæknis með faglegri þjónustu og hin nýja stofnun mun gera þjónustusamninga við stofnanir um framkvæmd þjónustunnar, markmið þjónustu og ákveðin fagleg viðmið.

Ég endurtek að það er ástæðulaust að halda að fagleg þjónusta muni verða minni eftir þessar breytingar.