135. löggjafarþing — 40. fundur,  10. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[17:01]
Hlusta

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Ásta Möller) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki enn fengið botn í hvernig hv. þingmaður komst að þeirri niðurstöðu í nefndaráliti sínu að fagleg yfirstjórn á fjármögnun hjúkrunarheimila verði flutt frá heilbrigðisráðuneyti til félags- og tryggingamálaráðuneytis. Í frumvarpinu segir að fagleg yfirstjórn og fjármögnun séu eftir sem áður í höndum heilbrigðisráðuneytis. Þangað til önnur svör berast hlýt ég að skoða það sem misskilning eins og ég benti á í ræðu minni áðan.

Hins vegar er alveg rétt hjá hv. þingmanni varðandi skiptingu á dvalarrýmum og hjúkrunarrýmum. Stofnanirnar hafa fram til þessa dags verið reknar tvískiptar, annars vegar dvalarrými og hins vegar hjúkrunarrými. Hins vegar höfum við heyrt frá ýmsum innan kerfisins að aðsókn í dvalarrými sé á undanhaldi, ekki síst á þeim stöðum þar sem þjónustuíbúðir fyrir aldraða standa þeim til boða.

Á þeim stofnunum þar sem hvorttveggja er fyrir hendi og verið er að breyta fjölbýlum í einbýli mun það sennilega ganga yfir dvalarrýmin. Stærsti hluti þjónustunnar verður þá eðlilega undir stjórn heilbrigðisráðuneytisins.

Á hinn bóginn felur breytingin í sér að ákveðin samfella verður í búsetuúrræðum aldraðra. Félagsmálaráðuneytið mun halda utan um byggingu hjúkrunarheimila þótt þjónustan verði að stærstum hluta hjá heilbrigðisráðuneytinu. Það er af hinu góða að búsetuúrræðin og búseta aldraðra inni á hjúkrunarheimilum verði á einni hendi.