135. löggjafarþing — 40. fundur,  10. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[17:05]
Hlusta

Jón Björn Hákonarson (F):

Hæstv. forseti. Eins og fram kom mælti hv. þm. Dýrleif Skjóldal fyrir nefndaráliti minni hluta heilbrigðisnefndar og ég ætla ekki að fara lengra út í þá misskilningsumræðu.

Um leið og ég tek undir nefndarálit minni hlutans vil ég þó sérstaklega vekja athygli á 18. gr. Ég tek undir með hv. þingmönnum sem komið hafa upp í dag og vakið á henni athygli. Mér finnst að málið sé afskaplega stutt á veg komið í 18. gr. Mér finnst ekki við hæfi að menn samþykki grein um nýja stofnun sem ekki er búið að ræða með nokkrum hætti eða setja um lög og boðað að það verði gert á vorþingi árið 2008.

Heilbrigðisþjónusta á að vera, eins og kemur fram í minnihlutaáliti okkar, óháð efnahag og félagslegri stöðu fólks. Það er einn af grundvallarþáttum í velferðarkerfi okkar. Mér finnst hart að því vegið þegar teknar eru ákvarðanir um að setja á fót stofnun sem þessa án þess að farið hafi fram umræður um hlutverk hennar og skilgreiningu.

Eins og fram kemur í áliti okkar tengist málið allt bandorminum sem hér er til umræðu. Við framsóknarmenn í minni hluta allsherjarnefndar höfum tekið þátt í að leggja til að honum verði vísað frá. Verið er að vinna verk sem ekki lá fyrir hvernig vinna ætti og gerir ekki enn. Það er gert á handahlaupum til að útbúa og uppfylla stjórnarsáttmálann.

Mér finnst alls ekki við hæfi, herra forseti, að farið sé með þetta fjöregg þjóðarinnar, heilbrigðisþjónustuna, með þessum hætti. Mér finnst að það megi bíða. Ræða þarf málið, skilgreina þarf stofnunina og hlutverk hennar, ræða það á Alþingi og síðan geta menn gengið frá málinu. Það finnst mér vera grundvallaratriði. Fram kemur í 18. gr. frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Starfrækja skal stofnun undir yfirstjórn heilbrigðisráðherra sem hefur m.a. það hlutverk að annast kaup, greiðslur og samninga um heilbrigðisþjónustu og framkvæmd þeirra málaflokka almannatrygginga sem heyra undir heilbrigðisráðherra.“

Það er nú allt og sumt og eðlilega hafa hv. þingmenn sem talað hafa í dag áhyggjur í ljósi ummæla sem komið hafa úr ranni ríkisstjórnarinnar sem ekki er hægt að skilja öðruvísi en að á döfinni sé einkavæðing. Auðvitað vilja menn taka hana upp. Stundum getur vel átt við að nýta sér kosti markaðarins. Ef menn vilja að sú umræða fari fram verða ýmsir þættir að vera ljósir áður.

Verði bandorminum og því máli ekki vísað frá, sem ég hef þungar áhyggjur af að verði raunin í ljósi mikils meiri hluta ríkisstjórnarflokkanna, vona ég að gildistöku 18 gr. verði frestað til 1. september og að umræðan verði þá hafin að nýju. Ekki getur legið svo á að það sé ekki mögulegt.