135. löggjafarþing — 40. fundur,  10. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[17:31]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni og ég er sammála honum um að með því að koma á fót sérstakri innkaupastofnun felist ekki nein einkavæðing, því fer víðs fjarri. Það yrði allt önnur ákvörðun sem menn yrðu að taka ef stíga ætti skref í þá veruna. Þetta er fyrst og fremst ákvörðun og kerfisbreyting frá ríkinu til að koma hlutunum þannig fyrir að líklegra sé en áður að ríkið borgi fyrir þjónustu sem það kaupir af þeim sem veita hana, hvort sem þeir aðilar eru stofnanir ríkisins eða sjálfseignarstofnanir, sem margar hverjar veita heilbrigðisþjónustu, eða hlutafélög, sem einnig eru dæmi um. Við sjáum víða í heilbrigðiskerfinu að breyting hefur orðið á síðustu árum þannig að ýmsir sem veita þjónustuna eru eiginlega einkaaðilar. Samningar eru við aðila sem reka heilsugæslustöðvar. Ríkið ræður hins vegar algerlega hvernig þjónustan er veitt, á hvaða verði hún er seld, þannig að það heldur öllum þráðum í sinni hendi og ekki er er hægt að kalla það einkavæðingu. Ég kalla það ekki heldur einkavæðingu þó að einkaaðilar reki öldrunarheimili eða öldrunarþjónustu svo fremi sem þjónustuþegar fá þjónustuna óháð efnahag og annarri aðstöðu. Ríkið tryggir að þjónustan sé í boði og ég tel ekki að menn fari inn á neinar brautir sem kalla má einkavæðingu, a.m.k. ekki að bandarískri fyrirmynd sem ekki er allt of góð reynsla af.