135. löggjafarþing — 40. fundur,  10. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[18:15]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það kann vel að vera að ég hafi notað orðið „eingöngu“, að álit okkar væri eingöngu birt á þeim umsögnum sem fyrir nefndinni lágu. Er það þá ónákvæmni af minni hálfu og biðst ég velvirðingar á því.

Mín skoðun á þessu er sú að taka beri tillit til og hlusta á varnaðarorð þeirra sem gerst þekkja til og það eru þeir aðilar sem hafa gefið hv. heilbrigðisnefnd umsagnir um þennan þátt og bent á að með því að láta öldrunarstofnanir heyra til félagsmálaráðuneytisins en hafa síðan faglega yfirstjórn einhvers staðar annars staðar muni skapast togstreita um fjármuni. Þetta litla dæmi sem hér var nefnt í dag um föndrið, hvenær það breytist frá því að vera tómstundir yfir í það að vera iðjuþjálfun og hvenær það hættir að vera félagslegt úrræði og verður heilbrigðismál með því að vera þjálfun segir í rauninni allt sem segja þarf. Mín skoðun er sú að það sé verið að stefna starfsemi þessara stofnana í nokkra tvísýnu með þessari tvískiptingu og það er það sem þeir aðilar sem ég hef sagt frá á undanförnum mínútum hafa varað við, að draga skil milli umönnunarþjónustu og heilbrigðisþjónustu. Menn hafa aðallega kvartað undan því að þjónusta við aldraða væri ekki öll á einni hendi. Það er þetta sem ég var að nefna hér áðan með heita vatnið og kalda, þegar maður er kominn ofan í baðið skiptir í rauninni ekki máli hvaðan vatnið kemur. Það er hitastigið sem þarf að vera rétt.