135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[15:52]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Þetta frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins er eins og komið hefur rækilega fram í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar afrakstur tveggja manna tals við stofnun núverandi ríkisstjórnar til að leysa úr ráðherraskipan á milli flokkanna. Þá er gripið til þess að vera þarna með miklar tilfærslur.

Hv. þm. Atli Gíslason, sem er fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í allsherjarnefnd sem hefur haft þetta mál til meðferðar, hefur skilað mjög ítarlegu nefndaráliti þar sem farið er yfir alla þætti þessa máls, þær umsagnir sem hafa borist vegna þess og þá gagnrýni sem komið hefur fram bæði á framgang málsins og á efnismeðferðina. Einnig leyfi ég mér að vísa til mjög ítarlegrar ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar áðan, m.a. um forsögu þess hvernig áður hefur verið unnið að breytingum á Stjórnarráðinu þar sem lögð hefur verið áhersla á að það væri gert í fullu samkomulagi og samvinnu allra hlutaðeigandi flokka á Alþingi og einnig í nánu samráði við starfsfólk þeirra stofnana sem hlut eiga að máli. Nú er breytt frá þeirri venju, nú er keyrt inn á aðferð valda og yfirgangs og ekki hirt um að hafa samráð, hvorki við aðra þingflokka á Alþingi né við starfsfólk eða stjórnendur stofnana sem í hlut eiga.

Slík vinnubrögð ber að harma og reyndar að fordæma. Svo er þetta keyrt fram af miklu hraði, með miklum látum, illa unnið og illa grundað. Þess vegna hafa fulltrúar bæði Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Framsóknarflokksins í hv. allsherjarnefnd lagt til í nefndaráliti sínu að þessu máli verði vísað frá. Þau segja að það sé illa unnið og, eins og þar stendur, með leyfi forseta:

„a. sú lagasetning sem í frumvarpinu felst muni ekki hafa í för með sér þá skilvirkni, hagræðingu og einföldun sem að er stefnt,

b. vönduð málsmeðferð búi ekki að baki samningu frumvarpsins, t.d. hefur ekkert samráð verið haft við undirstofnanir og hagsmunaaðila,

c. ekki liggur fyrir greining á annars vegar kostnaði við lagasetninguna og hins vegar þörfinni fyrir hana,

leggur minni hlutinn til að málinu verði vísað frá og tekið fyrir næsta mál á dagskrá“.

Undir þetta rita Atli Gíslason, framsögumaður og fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í allsherjarnefnd, og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, fulltrúi Framsóknarflokksins í allsherjarnefnd.

Þessi orð segja í rauninni það sem segja þarf um hversu illa undirbúið þetta er. Það sem ég mun fyrst og fremst gera að umtalsefni er hvernig grunnstoðir stofnana landbúnaðarins eru rústaðar stjórnsýslulega. Skógrækt ríkisins er tekin og verkefnum í skógrækt er tvístrað. Þau hafa til þessa fengið að vaxa, dafna og þróast undir forsjá landbúnaðarráðuneytisins en nú á að dreifa þessum málaflokkum á fleiri ráðuneyti. Hið sama er með landgræðsluna, þau verkefni sem hún hefur staðið að, 100 ára starfi landgræðslunnar á að sundra í ráðherrakapli ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar.

Hið sama er að segja um búnaðarskólana, Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og landbúnaðarháskólann á Hólum, Hólaskóla. Báða á að flytja undir annað ráðuneyti, flytja þá á milli ráðuneyta án þess að nokkur rök séu færð fyrir þeim gjörningi önnur en „af því bara“ til að leggja þann kapal.

Reyndar þarf ekki að koma neinum á óvart að Samfylkingin skyldi hafa það sem sitt fyrsta verk að krefjast þess að veikja stöðu landbúnaðarins. Það þekkjum við úr umræðunni frá undanförnum árum að landbúnaðurinn og grunnstoðir hans hafa verið þyrnir í augum Samfylkingarinnar og þess vegna virðist vera keppikefli hennar að veikja hann. Auðvitað er verið að veikja landbúnaðinn sem atvinnugrein, það er verið að veikja grunnstoðir landbúnaðarins með því að sundra þeim eins og hér er verið að gera.

Það er reyndar furðulegt en kemur kannski ekki á óvart að þegar frjálshyggjuöflin bæði í Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu ná saman skuli landbúnaðurinn verða fyrir barðinu. Það þarf svo sem ekki að koma á óvart þegar þessi öfl ná saman í ríkisstjórn.

Eins og rækilega hefur komið fram á að kljúfa Skógrækt ríkisins. Ég mun fara í gegnum nokkra þætti frumvarpsins og byrja á skógræktinni. Í umsögn frá Skógrækt ríkisins segir um þessar aðgerðir ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins sem miða að því að sundra stofnunum landbúnaðarins, með leyfi forseta:

„Í greinargerð með frumvarpinu kemur m.a. fram að það sé lagt fram „með það fyrir augum að hagræða, einfalda stjórnsýslu og skipa skyldum málaflokkum undir eina stjórn“. Þetta á þó greinilega ekki við um málaflokkinn skógrækt.

Í fyrsta lagi á að kljúfa skógrækt milli tveggja ráðuneyta þannig að stærsti framkvæmdaþátturinn, landshlutaverkefnin, verði eftir í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Skógrækt ríkisins leggur eindregið til að það verði ekki gert og að allur málaflokkurinn skógrækt verði áfram undir forræði eins ráðuneytis til að ná því höfuðmarkmiði frumvarpsins að „einfalda stjórnsýslu og skipa skyldum málaflokkum undir eina stjórn“.

Í öðru lagi á að kljúfa Skógrækt ríkisins upp milli tveggja ráðuneyta. Forræði yfir þjóðskógunum eigi áfram að vera hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Er sagt að þetta sé nauðsynlegt til að framfylgja 33. gr. jarðalaga, nr. 81/2004, um að landbúnaðarráðuneytið fari með forræði allra ríkisjarða, nema undantekningar séu gerðar frá þeirri reglu með lögum. Samkvæmt athugasemdum við frumvarpið ætla síðan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, umhverfisráðherra og skógræktarstjóri að gera með sér samning um áframhaldandi umsjón stofnunarinnar á jörðum og jarðarhlutum sem tilgreind eru í viðaukum við þann samning. …

Þá eiga fjárveitingar til skógræktarrannsókna áfram að vera hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Samkvæmt athugasemdum við frumvarpið eiga sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og umhverfisráðherra að standa í sameiningu að gerð rannsóknasamnings við Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins á Mógilsá til þriggja til fimm ára …“

Áfram er þetta mál rakið í athugasemdum Skógræktar ríkisins. Umsögn skógræktarstjóra fyrir hönd Skógræktar ríkisins lýkur með þessum orðum, herra forseti:

„Að mati Skógræktar ríkisins er hér í uppsiglingu eitt allsherjarstjórnsýslulegt klúður á málaflokknum skógrækt, sem draga mun úr mætti skógræktarstarfs í landinu um ókomin ár. Greinilega er ekki pólitísk samstaða um flutning á forræði yfir málaflokknum til umhverfisráðuneytisins og felst málamiðlunin í því að kljúfa hann upp. Forræði skógræktarmála í Stjórnarráðinu verður þar með óljósara og má gera því skóna að skógræktarmál verði nokkurs konar „einskis manns barn“ í stjórnkerfinu. Skorum við á Alþingi að taka þessar athugasemdir alvarlega og láta slíkt ekki gerast.“

Því miður virðist meiri hluti allsherjarnefndar Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar láta það gerast sem skógræktarstjóri varar við. Meira en aldargamalt uppbyggingarstarf í skógrækt á að fara á vergang, tvístrast eins og þarna er gerð grein fyrir. Það er engin þarfagreining sett fyrir þessum flutningi, engin rök færð fyrir því að sú staða sem nú er, þ.e. að hafa málaflokkinn undir landbúnaðarráðuneyti, sé slæm. Nei, þetta er geðþóttaákvörðun sem er án nokkurrar virðingar fyrir málaflokknum sem verið er að takast á um. Skógrækt er búin að vera hjartans mál þjóðarinnar í meira en öld, menn hafa lagt metnað sinn í að byggja þar upp fagþekkingu, rannsóknir, ráðgjöf hvers konar og einnig tilraunastarfsemi, tilraunaverkefni og umsýslu með skógrækt. Allt hefur þetta verið sett saman í eitt þannig að sem best skilvirkni væri, til að nýta sem best þá krafta sem eru til. Það hefur gengið vel en nú á að brjóta þetta upp.

Í umsögn Bændasamtaka Íslands segir einmitt um sama mál, með leyfi forseta:

„Stjórn BÍ leggst eindregið gegn því að landgræðsla og skógrækt flytjist frá landbúnaðarráðuneyti til umhverfisráðuneytis. Verkefni á báðum sviðum hafa verið að flytjast til bænda, og horft er til þess að landgræðsla og skógrækt geti orðið vaxandi þættir í tekjuöflun sveitanna í framtíðinni. …

Langmesta skógræktarstarfið fer nú fram á vegum landshlutaverkefnanna, og það er því öfugsnúið að færa fagstarf Skógræktar ríkisins, hvort sem er á Mógilsá eða annars staðar, yfir til umhverfissráðuneytisins.“

Það er lögð áhersla á það í þessum umsögnum að skógrækt er landbúnaður, er atvinnugrein og hluti af því að rækta og yrkja jörðina og á þess vegna að vera í landbúnaðinum, a.m.k. sé versti kosturinn að skipta henni upp með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir, gjörsamlega tillitslaust við þessa mikilvægu atvinnugrein, stoðgrein landbúnaðarins.

Lítum á landgræðsluna sem við höfum verið að fagna — við fögnuðum afmælisárinu, 100 ára afmæli skipulegrar landgræðslu á Íslandi — hún hefur alla tíð verið vistuð undir atvinnuvegaráðuneytinu, enda er þetta hluti af því viðfangsefni að rækta og yrkja jörðina, hluti af því verkefni sem landbúnaðurinn, sem bændur og þeir sem bera ábyrgð á landi, hefur sinnt og borið hitann og þungann af í gegnum áratugina. Nú á einnig að sundra Landgræðslunni með þessum tillögum og ég vísa í umsögn Landgræðslunnar um þetta mál. Fyrst er talað um landbætur en síðan er talað um að stór hluti af verkefnunum sem hefur tengst bændum í Bændur græða landið hafi byggst upp sem verkefni þar sem saman koma bændur, þeir sem yrkja landið, nýta og vernda sér til landbúnaðarframleiðslu og til að halda landi í byggð, fagmennirnir hjá Landgræðslunni, ráðgjafarnir og leiðbeinendurnir. Allt myndar þetta eina heild og það er búið að byggja upp trúnað þarna á milli, milli atvinnuvegarins, atvinnuvegaráðuneytisins, bænda og vísindamanna, ráðgjafa og þeirra sem fara með leiðsögn í þessum málum af opinberri hálfu í landgræðslunni.

Það er búið að byggja upp trúnað sem er forsenda fyrir góðu og öflugu starfi. Nú á að sundra þessu, skipta þessu á tvö ráðuneyti, fara með hluta af verkefnunum út úr landbúnaðarráðuneytinu og setja undir umhverfisráðuneytið. Það er ekki í sjálfu sér verið að gagnrýna umhverfisráðuneytið sem getur verið alls góðs maklegt hvað þetta varðar, en engin rök hafa verið færð fyrir því að þessi málaflokkur sé eitthvað illa kominn í atvinnuvegaráðuneytinu. Hann er búinn að vera þar í 100 ár og hefur vaxið þannig að við horfum nú stolt til 100 ára sögu skipulegrar landgræðslu hér á landi. Er nauðsynlegt, eins og hér er verið að gera af þessari ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokksins, að sundra þessum grunnstoðum íslensks landbúnaðar? Ég segi bara nei. Það þarf samt ekki að koma á óvart þegar þessi öfl í Samfylkingunni og Sjálfstæðisflokknum ná saman að þá skal einmitt höggvið á grunnstoðir landbúnaðarins. Ég skil ekki í þeim armi Sjálfstæðisflokksins sem ég hélt að vildi standa vörð um íslenskan landbúnað, grunnstoðir hans, að hann skuli láta þetta ganga með þessum hætti. Annað var sagt fyrir kosningar. Ég minnist þess á framboðsfundum í Norðvesturkjördæminu að þá lýstu frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins því yfir að þeir mundu aldrei láta ganga á stöðu eða rétt íslensks landbúnaðar, þeir mundu verja hann. Það voru ekki ófá köpuryrðin og glósurnar sem gengu frá frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins yfir til frambjóðenda Samfylkingarinnar þá hvað varðaði landbúnaðarmálin.

Svo að kosningum loknum er þessum yfirlýsingum og loforðum öllum kastað aftur fyrir bak og gengið að kröfum Samfylkingarinnar um það hvernig megi rústa og veikja grunnstoðir landbúnaðarins.

Ég vil því næst ræða um landbúnaðarskólana, rannsóknir, kennslu og ráðgjöf í landbúnaði. Forsjá búnaðarskólanna á Hólum og Hvanneyri sem báðir eru komnir á annað hundraðið hefur ætíð verið hjá atvinnuvegaráðuneyti. Eftir að þeir fóru undir ríkisstjórnarvaldið, undan ömtunum gömlu, Hólaskóli heyrði undir norðuramtið fram til 1907 er hann fór beint undir ríkisvaldið, hafa þeir alltaf tilheyrt atvinnuvegaráðuneyti. Þessar stofnanir hafa byggst upp með þeim hætti að þarna hefur verið lögð áhersla á að tvinna saman rannsóknir, kennslu, ráðgjöf, tilraunastarfsemi, leiðbeiningar og kennslu í nánu samráði og samstarfi við atvinnuveginn. Það hefur byggst upp mjög sterkt og virkt trúnaðarsamband á milli allra þessara aðila í kringum starf í búnaðarskólunum, trúnaður og virkni í öllum þessum þáttum sem er mun meiri en maður upplifir hjá mörgum öðrum menntastofnunum.

Hvernig hefur farið fyrir fiskvinnsluskólunum sem voru settir á stofn? Sjávarútvegurinn er líka einn af stærri atvinnuvegum þjóðarinnar. Því miður voru þeir ekki eins heppnir, því miður misstu þeir skólana sína úr tengslum við atvinnuveginn, héldu alltént ekki sömu tengslum og landbúnaðarskólarnir. Fiskvinnsluskólarnir liðu undir lok. Við höfum dæmin.

Ég minnist þess að þessi orðræða kom upp 1999. Þá var verið að vinna að nýjum heildarlögum um búnaðarfræðsluna og kveðið nánar á um réttindi, skyldur og hlutverk þessara skóla, að færa skólastigið á hærra akademískt stig. Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri hafði haft heimild til að brautskrá kandídata, Hólaskóli fékk leyfi til þess að kenna ákveðnar háskólagreinar. Þá kom einmitt fram þessi krafa, frá þingmönnum sem að mínu viti þekktu mjög lítið til mála, að þeir ættu að fara frá landbúnaðarráðuneytinu yfir til menntamálaráðuneytisins. Það er svona einfalt, af því að þetta heitir menntamál eitthvað í þessum kafla ætti það að vera undir menntamálaráðuneyti og þess vegna væri nauðsynlegt að flytja þá þar til.

Ég hef ekkert á móti því að menntamálaráðuneytið fari með meginþætti menntamála, en það þurfa líka að vera forsendur fyrir breytingunni. Ef eitthvað hefur gengið vel, hvers vegna þurfum við þá að rústa það? Í þessari orrahríð var ég skólastjóri á Hólum og þá báðum við um fund með þáverandi forsætisráðherra Davíð Oddssyni og við fórum, skólastjórarnir, forstöðumenn stofnana sem þarna var tekist á um, til að leita ásjár og heyra hvort það væri ófrávíkjanleg krafa að skólarnir færu á flakk milli ráðuneyta. Ég minnist þess fundar mjög vel því að þáverandi forsætisráðherra spurði einfalt: Er eitthvað að? Líður ykkur eitthvað illa undir landbúnaðarráðuneytinu? Finnst ykkur þið ekki geta starfað? — Nei, nei, okkur líður bara mjög vel. Við erum mjög sáttir við að vera undir landbúnaðarráðuneytinu. Við finnum að þar eigum við heima, þar höldum við öflugum tengslum við atvinnulífið og við getum vaxið og þróast á okkar forsendum.

Þá spurðum við einnig landbúnaðarráðherrann hvort hann vildi losna við skólana. Nei, hann hélt nú síður, hann sagði að það væri stolt ráðuneytisins að hafa þessar sterku og góðu menntastofnanir. Þá spurði þáverandi forsætisráðherra eitthvað á þann veg: Hvaða forsendur eru þá til að breyta til? Eru einhver sérstök rök fyrir því ef þetta gengur vel eins og er? Af hverjum eigum við þá að vera að rugga bátnum eða breyta þarna til? Niðurstaðan varð sú að skólarnir héldu stöðu sinni áfram hjá landbúnaðarráðuneytinu, fengu að halda sérstöðu sinni og hafa vaxið og dafnað sem aldrei fyrr. Ég held meira að segja að þessi 16 ár sem eru liðin frá þeim tíma hafi verið eitt öflugasta blómaskeið þessara stofnana og ættu þá að vera enn þá minni rök fyrir því að færa stjórnsýslu þeirra til.

Það er líka viss kostur að mínu mati að vera með ákveðna breidd í menntakerfinu í þessum skólum. Tengslin við atvinnulífið eru það dýrmætasta sem nokkur menntun á. Skortur á tengslum við atvinnulífið hefur einmitt verið talinn merki um veikleika annarrar almennrar menntunar í landinu, iðnmenntunarinnar, skortur á tengingu sem var höggvið á. Við höfðum góðu iðnskólana þar sem atvinnuvegurinn tók þátt í að mennta iðnaðarfólkið. Við búum að þessi fólki enn í járniðnaði, trésmíði o.s.frv.

Það er ekki sjálfgefið að byggja upp þessi tengsl og þetta traust. Mesti veikleiki almenna menntakerfisins á undanförnum árum er tengslaleysið við atvinnulífið enda hefur starfsnám og starfstengt nám átt mjög undir högg að sækja hjá menntamálaráðuneytinu á undanförnum árum eins og við þekkjum hér. Þeir skólar sem hafa verið með þetta nám hafa verið í stöðugu fjársvelti. Ekki hefur verið viðurkenndur nauðsynlegur kostnaður sem liggur á bak við iðnnám og starfsnám og þess vegna stendur þjóðin einmitt mun veikar en hún ætti að gera hvað varðar iðnmenntun og starfsmenntun í landinu.

Væri ekki nær að menntamálaráðuneytið tæki á sig rögg og bætti það starfs- og iðnnám sem það nú þegar ber ábyrgð á áður en það fer að fá til sín vel uppbyggt og sterkt nám eins og er hjá búnaðarskólunum og leggja þá þar með undir þá áhættu að fá mælistiku sem menntamálaráðuneytið hefur haft á verknámi, starfsnámi og iðnnámi?

Ég legg áherslu á að hérna eru menn komnir í hættuspil. Hér er verið að véla um þætti sem ég tel að þingmenn þekki einfaldlega ekki til og þeir séu meira og minna að vinna hér af vankunnáttu en ættu að taka meira tillit til þeirra umsagna sem koma frá stofnunum landbúnaðarins um þetta mál.

Það er auðvelt að missa hlutina niður, láta þá fara á hlið en það er erfitt og kostar orku og kraft að lyfta þeim upp, halda þeim uppi og halda þeim í stöðugri sókn. Það hafa þessir skólar náð að gera undir þeirri stjórnsýslu sem þeir hafa búið við og það er mikið glæfraspil að taka áhættu í þeim efnum, gjörsamlega órökstutt. Engin rök hafa komið fram fyrir því að nauðsynlegt sé að færa þessa skóla á milli ráðuneyta.

Ég ítreka þessi sjónarmið mín. Ég vil vitna til ályktunar sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð í Skagafirði, þar sem Hólaskóli er, gerði 20. nóvember sl. um þetta mál, með leyfi forseta:

„Vinstri græn í Skagafirði vara við þeim áformum sem koma fram í frumvarpi að breytingum á Stjórnarráði Íslands, að sundra verkefnum í landgræðslu og skógrækt og flytja stofnanir þeirra frá landbúnaðarráðuneytinu. Skógrækt og landgræðsla er óaðskiljanlegur hluti landbúnaðar og hefur verið ein af grunnstoðum landbúnaðarráðuneytisins. Nú á að kljúfa þær upp. Landbúnaðarskólarnir hafa heyrt undir atvinnuvegaráðuneytið frá upphafi og hefur það reynst þeim vel. Sem hluti af heildarstoðkerfi landbúnaðarins og annars atvinnulífs hinna dreifðu byggða hafa þessir skólar náð að vaxa og dafna og þróað með sér mjög náið samstarf við atvinnulífið. Engin málefnaleg rök hafa verið færð fyrir að flytja skólana frá ráðuneytinu.

Vakin er athygli á að Hólar í Hjaltadal er biskupssetur Norðlendinga og fjölþætt menningar- og sögusetur ekki aðeins á héraðs- heldur einnig á landsvísu. Staða og framtíð Hóla skiptir Skagfirðinga gríðarmiklu máli. Undir forsjá landbúnaðarráðuneytisins hefur þróast gott samstarf milli allra aðila sem staðnum tengjast. Í frumvarpinu er nánast engin grein gerð fyrir framtíðaráformum varðandi Hóla og Hólaskóla en aftur ítarlega fjallað um Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Lögð er þung áhersla á framtíð Hólaskóla sem sjálfstæðs menntaseturs og engar forsendur hafa skýrt nauðsyn þess að flytja hann undir annað ráðuneyti.

Enn fremur eru ítrekaðar efasemdir um gagnsemi þess að flytja málefni sveitarstjórnarstigsins yfir til samgönguráðuneytisins en sá flutningur gæti orðið til að veikja sveitarstjórnarstigið í landinu. Þá er einnig bent á að ef af flutningi þessa stóra málaflokks verður á milli ráðuneyta þá kemur vart annað til greina en að ráðuneytið heiti sveitarstjórnar- og samgönguráðuneyti til að undirstrika“ þann málaflokk.

Herra forseti. Ég legg áherslu á þetta með búnaðarskólana. Ég minni á að þetta eru ekki bara skólar, ekki bara hús með fjórum veggjum og götuhorni. Hólar eru ein stærsta jörð á landinu, ein landmesta jörð landsins. Samkvæmt lögum fer landbúnaðarráðuneytið almennt með meðferð jarða.

Ég minni líka á að þarna er fjöldinn allur af öðrum stofnunum á staðnum. Ég minni á vígslubiskupssetur Hólastiftis. Þarna er dýralæknir hrossasjúkdóma, Veiðimálastofnun og fjöldi stofnana, grunnskóli o.s.frv., fjöldi stofnana sem hafa gegnum árin mótað ákveðið samstarfsform og ábyrgðarskiptingu í þeim efnum. Þetta er ekki sjálfgefið haldi það einhver. Þetta er viðkvæmt, þessi hjörtu eru svo viðkvæm í byggðarlögunum sem skipta svo gríðarlegu miklu máli að það þurfa að vera ástæður til að breyta um.

Ég geri ekki lítið úr því þó að hæstv. menntamálaráðherra hafi núna skipað nefnd til að gera tillögur um eflingu Hóla. Það hljómar að vísu svolítið skondið því að ég veit ekki til annars en að Hólaskóli hafi verið í mikilli eflingu á undanförnum árum, bara stanslaust frá því upp úr 1980 þegar tekin var ákvörðun um að endurskoða skólann. Auðvitað er sjálfsagt að efla hann áfram en úr þessari yfirlýsingu ráðherrans má lesa að þar hafi ekki verið öflugt starf og það sýnir vissa vankunnáttu að mínu mati á málefnum Hólastaðar.

Ég tel að mikil ábyrgð hvíli á þeim ef á að fara að breyta til um sjálfstæði skólans. Það skiptir miklu máli að stofnanir eins og landbúnaðarháskólarnir séu sjálfstæðar stofnanir á ábyrgð ríkisins og það sé ekki farið að fikta neitt með rekstrarform á þeim eins og hefur verið látið í veðri vaka. Ég hefði viljað spyrja hæstv. menntamálaráðherra út í hugmyndir um að fikta við rekstrarform landbúnaðarháskólanna eða skólans á Hólum. Á að fara að taka þar upp einhver einkavæðingaráform um einstaka þætti hans eða alla? Ég vara við svoleiðis gáleysislegum hugmyndum. Fólk í ábyrgðarstöðum sem lætur svoleiðis út úr sér er að leika sér með eld.

Ég bið þá sem koma að málefnum stofnunarinnar, verði þetta að raunveruleika, hvort sem það er Hólaskóli, Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri, Landgræðsla ríkisins eða Skógrækt ríkisins sem hér er verið að leggja til að sundra og skipta upp, að íhuga að þetta eru einar virtustu og sterkustu stoðir, ekki bara íslensks landbúnaðar, íslenskrar menningar, íslensks atvinnulífs heldur samfélags okkar, okkar sterka dreifbýlissamfélags. Menn eiga ekki að leika sér að því, eins og hér er verið að gera, að sundra þeim og veikja stoðir íslensks landbúnaðar.

Herra forseti. Ég get svo farið að láta orðum mínum lokið varðandi þetta. Ég ákvað að taka sérstaklega þá þætti sem lutu að landbúnaðarstofnunum og tel að þarna sé verið að fara út í gjörsamlega órökstudda og óábyrga vegferð.

Það má vel vera að í einhverju öðru lengra ferli væri rétt að færa málaflokka á milli ráðuneyta ef verið væri að skoða málin heildstætt. Ekki er verið að taka hluta af Hafrannsóknastofnun og færa hana til umhverfisráðuneytisins. Gætu þó ýmsir haldið að það væri einhver liður í heildarskoðun á þessu máli ef menn horfa á þetta heildstætt. Ég hef ekkert á móti því að það mál væri skoðað, tilflutningur á einstökum þáttum milli ráðuneyta, t.d. á milli umhverfis- og atvinnuvegaráðuneyta, ef það væri gert með heildstæðum hætti og af einhverri sýn, en ekki af fullkominni tækifærismennsku eins og hér er verið að gera.

Auðvitað á að gefa svona málum tíma. Það ætti að setja þverpólitíska þinglega nefnd með fulltrúum allra flokka sem fengi eitt ár til að endurskoða þessa skipun og gera tillögur um annað fyrirkomulag ef það þætti vitlegt. Auðvitað á að vinna þannig en ekki með svo gerræðislegum hætti að vinna þetta allt ofan frá með valdboði eins og hér er verið að gera. Sú vinna er alveg forkastanleg. Af þeim ástæðum hafa fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í allsherjarnefnd lagt til að þessu máli verði vísað frá, það unnið betur og með öðrum hætti en hér er gert, herra forseti. Ég vísa allri ábyrgð á þessum hroðvirknislegu vinnubrögðum á ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks sem virðist hafa fundið það sem sitt fyrsta verkefni að ráðast að grunnstoðum íslensks landbúnaðar, landgræðslu, skógrækt og landbúnaðarháskólunum. Ég harma þá stefnubreytingu sem virðist hafa orðið hjá stjórnvöldum en það var kannski ekki við öðru að búast þegar Samfylking komst í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki.