135. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2007.

staða þjóðkirkju, kristni og kristnifræðslu.

[15:59]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu, þá sérstaklega orð hæstv. kirkjumálaráðherra og hæstv. menntamálaráðherra. Það sýndi mér að hæstv. kirkjumálaráðherra sagði í rauninni að nefnd þingsins mundi ekki frekar en fyrr bregðast kristninni og siðgæðinu, málinu yrði breytt. Hæstv. menntamálaráðherra kom hér upp, sem ég veit að er trúuð og vönduð manneskja, og sagði á þá leið að nefnd hefði lagt þetta til og Evrópusambandið væri á vakt. Ef Evrópusambandið ætlar nú að reka guð út úr þjóðsöngnum og krossinn af fánanum er til lítils að eiga náið samstarf við það. Við skulum ekki taka mark á því, við erum utan þess og frjálsir og þess vegna hlýtur kristilegt siðgæði að fá að vera grundvöllur skólastarfs. Ég fann að þar sló hjarta hæstv. menntamálaráðherra og ég trúi því að þessu máli verði hér breytt.

Ég legg til að hæstv. menntamálaráðherra, hæstv. kirkjumálaráðherra og biskupinn yfir Íslandi hittist og fari yfir þetta máli, ræði það sín á milli. Ég efast um að þessir þrír aðilar hafi átt með sér fund um málið.

Svo vil ég hér að lokum segja að mikilvægustu stoðir samfélags okkar eru í mínum huga heimilin, skólinn og kirkjan. Heimilin þarf að styrkja á tímum firringar, eiturlyfja, óreglu og grimmrar markaðshyggju. Hin dýpri gildi og sálarfriður verða ekki sótt í formi gulls eða í gervi vímu. Við þurfum kannski að horfa á mörgum sviðum til gamalla gilda. Það var siður hér áður fyrr — og þarf kannski nú frekar en áður — að stórfjölskyldan hittist á sunnudögum, borðaði lambalæri eða lambahrygg með brúnuðum kartöflum og rabarbarasultu. Það gæti verið varðstaða fjölskyldunnar til að koma saman, taka hvert utan um annað (Forseti hringir.) til þess að auka ástúð og kærleika. Svo geta menn eðlilega farið til messu. (Forseti hringir.) Ég styð trúfrelsi, en stöndum vörð um þúsund ára starf þjóðkirkjunnar á Íslandi.