135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[17:02]
Hlusta

Árni Johnsen (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er bjargföst skoðun mín að veiðileyfagjald á sjávarútveginn sé röng skattheimta og valdníðsla á einni atvinnugrein umfram aðrar á Íslandi sem tengjast nýtingu auðlinda landsins.

Breytingartillaga mín, herra forseti, á því frumvarpi sem hér um ræðir miðar að því að fella þessa sértæku gjaldtöku út, bæði með tilliti til þess að innheimtan er ósanngjörn og röng en ekki síst vegna þess að þetta svokallaða auðlindagjald er ánauð á landsbyggðinni sem greiðir 85% af veiðileyfagjaldinu en höfuðborgarsvæðið 15%. Það er galin gjörð með tilliti til stöðu landsbyggðarinnar og forgangs höfuðborgarsvæðisins. Ég veit að margir hv. þingmenn eru í hjarta sínu sammála mér en að sinni er augljóst að ekki er samstaða til að hrinda brott þessari valdníðslu, herra forseti, sem ég hef kallað kommúnisma Morgunblaðsins. (Forseti hringir.)

Með tilliti til þess að gjaldið hefur verið lækkað úr 1.100 millj. kr. í rúmlega 400 millj. kr. þá vil ég líka sýna tillitssemi í stöðunni og draga tillöguna til baka.