135. löggjafarþing — 47. fundur,  15. jan. 2008.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[15:32]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í umræðunni í félagsmálanefnd og hér í dag hefur mér fundist áberandi áherslan á formið, þ.e. umbúðirnar um Jafnréttisráð. Það er eins og silkihúfurnar séu uppteknar af því að staflast hver á aðra. Hver tekur þátt í Jafnréttisráði o.s.frv. bjargar jafnréttinu ekki neitt. Mér finnst sumir mjög uppteknir af þessu og mér finnst þetta bera vott af því sem ég hef nefnt áður, jafnréttisiðnaðinum, að þetta er orðinn iðnaður í sjálfu sér, að hafa eftirlit með, kontrólera misréttið o.s.frv. en ekki að laga misréttið sjálft.

Ég ætla að spyrja hv. þingmann: Skiptir virkilega svona miklu máli að menn eyði svo stórum tíma af ræðutíma sínum í það hverjir tilnefni í Jafnréttisráð? Það vill svo til að þarna er Femínistafélagið, Kvenfélagasambandið og Kvenréttindafélagið. Eitt af þessum félögum veitir ekki einu sinni karlmönnum aðild. Svo kvartar hv. þingmaður yfir því að eitt félag, sem hugsanlega kann að vera karlafélag, tilnefni menn þarna inn. Er hv. þingmaður yfirleitt á móti því að karlmenn taki þátt í jafnréttisbaráttunni?