135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

samræmd neyðarsvörun.

191. mál
[14:32]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er auðvitað rétt hjá hv. þingmanni að við erum í grundvallaratriðum ósammála um rekstrarform þeirrar þjónustu sem hér um ræðir. Ég hef skýrt sjónarmið okkar vinstri grænna í þeim efnum og ég geri ekki ráð fyrir að við náum svo sem saman um þau. Við þurfum sennilega áfram að hamra það járn ef við eigum að fá Sjálfstæðisflokkinn á okkar band í þeim efnum. Ég er svo sem ekkert vongóð um að það takist, alla vega ekki á þessu kjörtímabili, hvað svo sem síðar verður.

Ég fagna því hins vegar sem hv. þingmaður sagði varðandi 4. gr. og það reglugerðarákvæði að þetta sé ekki breyting frá því sem verið hefur hingað til. Ég tel engu að síður eðlilegt að nefndin skoði hverjir viðbragðsaðilarnir eigi að vera úr því að málið kemur aftur inn til hennar milli 2. og 3. umr., það er einnar messu virði að skoða það.

Varðandi fjarskiptalögin almennt sem ég ræddi hér í fyrra andsvari mínu þá vil ég segja að heimildir eru fyrir því í fjarskiptalögum að þjónusta sem varðar öryggi borgaranna geti verið skilgreind undir alþjónustunni, eftir því sem mér skilst. Þá tel ég það vera tilefni fyrir þingheim að taka til frekari skoðunar hvort neyðarþjónusta af þessu tagi eigi ekki að fara inn í skilgreiningu alþjónustunnar.

Það kemur fram í máli hv. þm. Birgis Ármannssonar að um þetta er ágreiningur milli Póst- og fjarskiptastofnunar og fjarskiptafyrirtækjanna. Ég teldi eðlilegt að við, löggjafinn, tökum það mál inn til skoðunar og athugum hvort ekki sé hægt að færa mál þar til betri vegar.