135. löggjafarþing — 114. fundur,  29. maí 2008.

yfirlýsing frá forsætisráðherra.

[22:04]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Við Íslendingar höfum enn einu sinni verið minnt á hin óblíðu náttúruöfl hér á landi. Hugur okkar er með íbúum Suðurlands sem hafa nú í annað sinn á innan við áratug upplifað stóran Suðurlandsskjálfta. Ríkisstjórnin mun gera það sem í hennar valdi stendur til að koma þeim sem orðið hafa fyrir tjóni vegna jarðskjálftans fyrr í dag til hjálpar. Eftir því sem næst verður komist urðu sem betur fer einungis minni háttar meiðsl á fólki. Þótt við megum þakka forsjóninni fyrir að ekki fór verr, er ljóst að eignatjón er mjög mikið. Nú er forgangsatriði að tryggja öryggi þeirra sem búa á skjálftasvæðinu. Ég vil færa starfsmönnum almannavarna, lögreglu, björgunarsveitum, heilbrigðisstarfsfólki og öllum öðrum sem komið hafa til aðstoðar þakkir ríkisstjórnarinnar.

Á næstu dögum mun skýrast betur hvert tjónið er og að hvaða marki gildandi tryggingar og viðlagabótakerfi munu mæta því. Á stundu sem þessari standa Íslendingar saman sem einn maður. Ríkisstjórnin mun á fundi sínum í fyrramálið ræða frekar viðbrögð vegna þessara náttúruhamfara.