136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[12:01]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður flutti hér ítarlega ræðu og gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum. Þótt hann hefði kosið að fara aðra leið en þá sem ríkisstjórnin hefur valið þá var eitt og annað sammerkt í ræðu hans og því sem verið er að vinna að hér. Það er t.d. ekki ætlunin að nota þau lán sem tekin verða frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og öðrum nálægum löndum nema brýna nauðsyn beri til þess. Vonandi þarf því ekki að nýta þau og jafnvel ekki að taka þau öll. Það fer eftir hvernig þróun mála verður á gjaldeyrismarkaðnum.

Það er búið að borga út ákveðinn hluta af láninu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, það er rétt sem hv. þingmaður sagði. Þeir fjármunir eru í ávöxtun í bandaríska seðlabankanum í New York og hafa að sjálfsögðu ekki verið nýttir eins og þingmaðurinn gaf í skyn, þ.e. að búið væri að draga á þá peninga áður en Alþingi samþykkti þessa ályktun. Það hefur ekki verið gert og verður ekki gert enda verður þeim peningum skilað ef Alþingi fellst ekki á þá leið sem hér er lögð til.

En það sem er ánægjulegt, herra forseti, er að í gær var krónan sett á flot eins og það er kallað og styrktist um milli 8 og 9% og það sem af er þessum morgni hefur hún styrkst um tæplega 7%. Og ef þetta heldur svona áfram þá gefur það góðar vonir um að sú áætlun sem verið er að setja hér í gang og unnið er að í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn gangi upp og þá verði hægt mjög fljótlega, ef krónan styrkist og nýtt og öflugra gengi fyrir íslensku krónuna festist í sessi, að búast við því að verðbólgan gangi hratt niður. Og hvað gerist þá? Þá byrja vextirnir að lækka og vonandi líka mjög hratt. Kannski strax fljótlega á næsta ári, ef þetta gengur eftir. Um þetta getur enginn fullyrt neitt en þetta gefur góða von um að þessi áætlun nái tilgangi sínum.