136. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2008.

skattlagning kolvetnisvinnslu.

208. mál
[16:30]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í tilefni síðustu orða hv. þingmanns þá er það rétt að skýrslan hefur verið kynnt í iðnaðarnefnd en þar hef ég aldrei átt sæti. Ég á hins vegar sæti í umhverfisnefnd Alþingis og skýrslunni var fyrst dreift þar í vetur, svo að það sé allt á hreinu.

Varðandi hina góðu og djúpu umræðu sem hv. formaður iðnaðarnefndar vill að fari fram um þessi mál vil ég segja þetta: Mælt var fyrir frumvarpi iðnaðarráðherra um kolvetnisvinnslu hinn 21. nóvember, (Gripið fram í.) það eru kannski tvær vikur síðan. Málið hefur ekki enn, eftir því sem ég best veit, verið tekið á dagskrá iðnaðarnefndar. (Gripið fram í: Jú, jú.) Það kann að vera rétt, ég á ekki sæti í iðnaðarnefnd. Í síðustu viku var það tekið — (Forseti hringir.) Takk fyrir, forseti.

(Forseti (EMS): Forseti vill biðja þingmenn um að vera ekki í samtölum hér.)

Takk fyrir, forseti. Það upplýstist hér í frammíkalli hv. formanns iðnaðarnefndar að málið hafi verið tekið á dagskrá iðnaðarnefndar í síðustu viku. Á þeim fundi var ákveðið að senda málið til umhverfisnefndar. Umfjöllun umhverfisnefndar fór fram á fundi í morgun. Hann var innan við klukkutíma langur. Á hann komu á annan tug gesta sem tappað var af og við spurðum út í málið. Þar komu fram gríðarlega alvarlegar athugasemdir fyrst og fremst frá Skipulagsstofnun, sömuleiðis frá Náttúrufræðistofnun Íslands og ákveðnar tæknilegar ábendingar frá Umhverfisstofnun og fleiri aðilum. Ég tel því fullt tilefni til að gagnrýna þá málsmeðferð sem hér er viðhöfð. Ég tel það algjöran óþarfa hjá hv. formanni iðnaðarnefndar að fyrtast við því að það er augljóst að mál af þessari stærðargráðu fær ekki nægan tíma í nefndunum ef afgreiða á þetta sem lög fyrir 15. janúar.

Yfirlýsing hv. formanns nefndarinnar er hins vegar mikilvæg. Hún segir: (Forseti hringir.) „Ef þörf er á því að færa þá dagsetningu til verður það gert.“ Ég vona að hæstv. fjármálaráðherra hafi verið að hlusta.