136. löggjafarþing — 55. fundur,  12. des. 2008.

störf þingsins.

[10:42]
Horfa

Helga Sigrún Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Komið hefur fram í blaðagreinum og fjölmiðlum varðandi þetta mál að mjög margir telja að þessi málshöfðun okkar muni skila okkur töluverðum árangri. Nefni ég í því samhengi að varaforseti Evrópuþingsins, Diana Wallis, er þeirrar skoðunar að aðgerðir Breta hafi gert vonda stöðu verri og segir tíma samstöðu Evrópuríkjanna upp runna þó að við höfum kannski ekki séð það í reynd hér. Þetta mál hefur verið rætt mjög víða og mjög margir eru sannfærðir um að við höfum mjög sterka stöðu hér á landi.

Hv. formaður utanríkismálanefndar telur og segir að ýtrustu hagsmuna verði gætt í þessu máli. Ráðin var lögmannsstofa af hálfu ríkisins til að kanna málið og kom það fram í fjölmiðlum 16. október. Væri fróðlegt að vita hvort sú lögmannsstofa hefur skilað einhverri niðurstöðu og hver hún er þá. Tveir mánuðir eru liðnir og svo virðist sem ríkisstjórnin haldi ekki nógu vel á spöðunum og sé að einhverju leyti að draga lappirnar og maður veltir fyrir sér hvers vegna. Ef hv. formaður utanríkismálanefndar væri tilbúinn að gefa upplýsingar um þátt seðlabankastjóra í þessu máli öllu saman — nú sé ég að formaðurinn glottir — en komið hefur fram í fjölmiðlum og Bretar sjálfir segja, og það kom fram í Financial Times, að yfirlýsingar seðlabankastjóra á fundi Viðskiptaráðs hafi veikt forsendur málsóknar íslenskra stjórnvalda á hendur Bretum.

Það væri gott að heyra hvernig þessum (Forseti hringir.) ýtrustu hagsmunum sem formaðurinn nefnir verður beitt í framkvæmd.