136. löggjafarþing — 55. fundur,  12. des. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[11:49]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta sjútv.- og landbn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er allsendis ósammála hæstv. ráðherra. Frumvarpið eins og það liggur fyrir tryggir alls ekki að útflutningur óunnins afla takmarkist frá því sem nú er. Það er ekki trygging fyrir því, það er allsendis óvíst. Hér þarf róttækari tillögur. Ég hefði getað verið sammála andsvari hæstv. ráðherra fyrir einu ári, en ég er það ekki í stöðunni í dag. Ég get ekki verið það.

Hæstv. ráðherra segir að það þurfi að leita allra leiða, en það er ekki verið að gera það. Það er ekki trygging fyrir því að þessi göfugi tilgangur sem að baki er nái fram að ganga. Síðan er vísað til Samkeppniseftirlitsins, ég gef dauða og djöful í það í stöðunni í dag. Evrópusambandið getur aldrei verið dragbítur á atvinnu á Íslandi, og er ekki stofnað til þess. Við verðum að horfa fram hjá því — og ég er að tala um tímabundnar aðgerðir sem ég þykist fullviss um að Samkeppniseftirlitið, Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, og aðrir muni samþykkja. Við erum jaðarbyggð sem er að berjast fyrir lífi sínu, menn verða að skilja það.

Það er sitthvað í frumvarpinu sem opnar verulega fyrir þetta. Ráðherra getur með reglugerð heimilað að ísfiski sé landað í erlendum höfnum eða hann fluttur út án þess að hann sé vigtaður. Það er sett á, eins og hér hefur komið fram í umræðunni, lágmarksverð gagnvart íslenskum fiskverkendum, kaupendum, en ekki gagnvart erlendum kaupendum. Þetta lágmarksverð mun torvelda aðgengi innlendra (Forseti hringir.) fiskverkenda.