136. löggjafarþing — 55. fundur,  12. des. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[12:01]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta sjútv.- og landbn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst það síðasta, að geta farið að starfa. Það er ekkert í bráðabirgðaákvæðinu sem kemur í veg fyrir það vegna þess að bráðabirgðaákvæðið kippir ekki úr sambandi þeim grundvelli frumvarpsins að fiskurinn fari allur á uppboðsmarkað, það er bara þetta, að hann verði verkaður innan lands. Það kippir því ekki úr sambandi.

Að hér þurfi mun meiri tíma. Við þingmenn höfum staðið frammi fyrir því síðan 6. október að taka fjölda mála til afgreiðslu vegna neyðarástandsins. Við höfum fengið inn á þingið mál með nánast engum fyrirvara, jafnvel mál og breytingar á málum sem ekki voru rædd í nefnd þegar þau komu til 3. umr. Þar nefni ég frumvarp um fjármálafyrirtæki. Það er engin — ég ítreka, engin — afsökun fólgin í því að það þurfi meiri tíma. Við höfum unnið hratt og örugglega að fjölda mála þar sem afbrigði hafa verið veitt. Eru ekki ein fimm mál í dag sem afbrigði eru veitt fyrir? Við gátum, og ég fullyrði það, afgreitt þetta mál ef til þess hefði verið vilji. Formlegar ástæður ýta ekki af brautinni samfélagslegum og þjóðhagslega brýnum hagsmunum í því neyðarástandi atvinnu sem við búum við. (Gripið fram í.) Þau ýta í burtu, neyðin brýtur lög ef því er að skipta.