136. löggjafarþing — 55. fundur,  12. des. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[14:18]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta sjútv.- og landbn. (Grétar Mar Jónsson) (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég skynjaði það í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd að vilji var til þess að gera þær breytingar sem hefðu það að markmiði að auka vinnslu innan lands á fiski, og ég er út af fyrir sig mjög ánægður með það. En okkur í nefndinni greinir á um það hvernig staðið skuli að því, hvernig reglugerðirnar í kringum þetta eigi að vera til að koma því í gegn að meiri fiskur verði unninn á Íslandi — 56 þúsund tonn gætu verið 2.000–2.500 störf, bein og óbein, af því að ná þessum fiski inn í landið til vinnslu hér.

Þó að breytingartillaga hafi komið frá mér og svo aftur önnur breytingartillaga frá hv. þm. Atla Gíslasyni, sem gengur kannski lengra en breytingartillaga mín, þá er það út af því að við búum við neyðarástand núna, miklu verri stöðu en við gerðum okkur grein fyrir að mundi geta skollið á íslensku þjóðinni. Fyrir þremur mánuðum hefði enginn getað spáð fyrir um hversu alvarleg staðan er í þjóðfélagi okkar, þó svo að einhverjir hafi séð ákveðin merki um að mjög alvarleg kreppa væri að skella yfir okkur.

Það er í lagi að ræða líka frystitogarana, þeir mættu koma með hryggi, hausa, lifur og hrogn í meira mæli en þeir hafa verið að gera. Á vertíðarbátum er verið að hirða hrogn og svil og náttúrlega haus og hrygg og þetta er allt nýtt. (Forseti hringir.) Við þurfum að gera allt sem við getum (Forseti hringir.) til að skapa störf.