136. löggjafarþing — 55. fundur,  12. des. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[14:23]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta sjútv.- og landbn. (Grétar Mar Jónsson) (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Stundum finnst manni eins og stjórnarliðar, allir sem einn, séu að bakka upp og styðja við handónýtt fiskveiðistjórnarkerfi og séu strengjabrúður hjá LÍÚ-klíkunni svokallaðri, og þar er hv. þm. Karl V. Matthíasson engin undantekning. Hann vildi slá af veiðileyfagjaldi fyrir ári. Hann treystir sér til að styðja það að menn megi geyma á milli ára ekki bara 20% heldur núna 33% af kvóta, ef frumvarp verður samþykkt um það, til að halda uppi leiguverðinu og hjálpa LÍÚ að pína upp leiguverð á veiðiheimildum.

Síðast en ekki síst hefur ekkert heyrst frá hv. þingmanni um mannréttindabrot sem búið er að stunda í þessu fiskveiðistjórnarkerfi í heilt ár. Hv. þingmaður hefur ekki lagt sig fram um að fá því breytt, ekki er hægt að segja að það sjáist neins staðar. Vel má vera að hann sé að vinna að því innan síns flokks en við hér í þinginu höfum ekki orðið vör við það — og mennirnir sem urðu fyrir þessum mannréttindabrotum, þetta hefur ekki verið leiðrétt við þá, þeim hafa ekki verið greiddar bætur fyrir eins og mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna vildi að yrði gert.

Áfram eru mannréttindi brotin á fólki. Þó að þessir tveir ágætu menn vestur á fjörðum hafi fengið þann úrskurð frá mannréttindanefnd að verið væri að brjóta á þeim mannréttindi er með fiskveiðistjórnarkerfinu verið að brjóta mannréttindi á fólki á hverjum degi. Ég hvet hv. þingmann til að snúa sér í fullri alvöru að því að reyna að lagfæra það með svokölluðum jafnaðarmönnum, sem þykjast vera jafnaðarmenn, þ.e. samfylkingarfólki, sem virðist vera samþykkt þessu og lætur þetta yfir sig ganga.