136. löggjafarþing — 55. fundur,  12. des. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[14:29]
Horfa

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Við vorum með þetta mál til umfjöllunar, hvernig við ættum að reyna að koma þeim fiski á markað sem áður var siglt með beint af miðunum (Gripið fram í.) til Hull eða Grimsby eða víðar. Þetta mál felur það líka í sér, þó að það sé ekki aðalmálið í þessu, að meira eftirlit sé með því hvernig fiskinum er landað o.s.frv. Það er í góðu lagi að hv. þm. Atli Gíslason beri fram tillögur um að við setjumst öll yfir það hvernig hægt sé að auka atvinnu á Íslandi, bæði á þessu sviði og þá væntanlega á öðrum líka.

Ég get spurt á móti: Hvað segir þingmaðurinn ef við setjum fram tillögu um að frystitogurum verði bannað að vinna fisk úti á sjó og komið yrði með allan fisk í land sem unninn er úti á sjó? Það mundi auka atvinnu enn meira. Við gætum jafnvel velt því fyrir okkur að banna ákveðinn útflutning á áli, af því að það er allt hrátt, til að fara að vinna úr því líka og við gætum unnið meira úr ýmsu öðru sem flutt er út sem hrávara.

Auðvitað er verið að gera heilmikið í því að reyna að skapa atvinnu í landinu en ég tel ekki rétt að taka þetta mál út úr eitt og sér. Við skulum taka þetta fyrir strax og þing kemur saman eftir jólaleyfi, en þetta mál er ekkert samhangandi, þetta er sérstakt, viðamikið og stórt mál og hefði kostað marga daga. Það getur verið að hv. þingmaður vilji (Forseti hringir.) sitja hér öll jólin og ræða um hag þjóðarinnar, það er ágætt. (Gripið fram í.)