136. löggjafarþing — 55. fundur,  12. des. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[15:03]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta (Grétar Mar Jónsson) (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég held allir nefndarmenn séu sammála um að þetta verði til þess að auka vinnslu á fiski innan lands, og það er jákvætt, en okkur greinir á um leiðirnar til að gera það. Ég treysti því að nefndarmenn muni fylgjast vel með því sem mun ske á næstu mánuðum, hvort þetta verður til aukningar á afla innan lands eða ekki. Ég trúi því og treysti að Alþingi muni grípa til þeirra aðgerða sem þarf.

Ég hefði viljað gera þetta fyrr til þess að koma í veg fyrir að vertíðin rynni úr höndum okkar og að meira af þeim afla sem fiskast á vertíðinni færi í íslenskar fiskvinnslur frekar en óunninn úr landi. Auðvitað mun halda áfram að fara óunninn fiskur úr landi, það er verið að kaupa fisk af dagróðrabátum í hverri viku, á hverjum degi sem er verið að slægja og setja í gáma og flytja úr landi. Ég vona að við í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og þingheimur allur bregðist strax við þegar við sjáum hvernig málin þróast. Ég óttast og tel mig vita að það muni engin breyting verða á þessum málum með þessu frumvarpi og það þurfi að grípa til annarra og betri aðgerða og ég trúi ekki öðru en að hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir leggi okkur lið í því að leiðrétta það ef þetta næst ekki fram með þessu frumvarpi.