136. löggjafarþing — 55. fundur,  12. des. 2008.

almannatryggingar.

235. mál
[15:36]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er fjallað sérstaklega um bættan hag aldraðra og öryrkja og að unnið verði að einföldun almannatryggingakerfisins. Þá segir einnig að fylgt verði eftir tillögum örorkumatsnefndar um stóraukna starfsendurhæfingu og nýtt matskerfi varðandi örorku og starfsgetu. Jafnframt verði komið til móts við þann hóp sem er með varanlega skerta starfsgetu.

Í frumvarpi því sem ég mæli hér fyrir er gert ráð fyrir að 11. töluliður ákvæðis til bráðabirgða, sem kveður á um 100 þús. kr. frítekjumark á atvinnutekjur örorkulífeyrisþega, verði áfram í gildi út árið 2009. Þetta þýðir að örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar geta áfram aflað sér tekna af atvinnu upp að 100 þús. kr. á mánuði án þess að það hafi áhrif til skerðingar á lífeyrisgreiðslur þeirra.

Alþingi samþykkti á síðasta þingi lög nr. 17/2008, um breytingu á lögum um almannatryggingar, og lögum um málefni aldraðra. Þar var kveðið á um margvíslegar breytingar á greiðslum í þágu aldraðra og öryrkja og ríkisstjórnin gerði grein fyrir því með yfirlýsingu þann 5. desember 2007. Í lögunum er m.a. kveðið á um 100 þús. kr. frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega á aldrinum 67–70 ára frá og með 1. júlí 2008.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að megintilgangur þess að hækka frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega væri að stuðla að aukinni atvinnuþátttöku þeirra og gera þeim kleift að afla sér aukinna tekna af atvinnu án þess að bætur frá Tryggingastofnun ríkisins skerðist.

Þá kom fram að framkvæmdanefnd forsætisráðherra um endurskoðun örorkumats og eflingu starfsendurhæfingar ynni að tillögum um framkvæmd sem ætlað væri að ná svipuðum markmiðum hvað varðar örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega og hvetja einstaklinga til vinnu. Fram kom að slíkar tillögur sem miði að því að tryggja örorkulífeyrisþegum 100 þús. kr. frítekjumark vegna atvinnutekna eða ígildi þess verði síðar lagðar fyrir Alþingi.

Í maí síðastliðnum samþykkti Alþingi lög nr. 57/2008 þar sem nýju ákvæði til bráðabirgða var bætt við lög um almannatryggingar og kveðið á um það að þrátt fyrir ákvæðið í 16. gr. laganna skuli örorkulífeyrisþegi á tímabilinu 1. júlí 2008 til 1. janúar 2009 geta valið um að hafa 100 þús. kr. frítekjumark á mánuði vegna atvinnutekna eða telja 60% af atvinnutekjum til tekna við útreikning tekjutryggingar. Með þessu var frítekjumark vegna atvinnutekna örorkulífeyrisþega hækkað til samræmis við hækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega á aldrinum 67–70 ára eða í 100 þús. kr. á mánuði.

Samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu tók hækkun frítekjumarksins gildi 1. júlí 2008 og gildir það til bráðabirgða til 1. janúar 2009. Þar sem nú er ljóst að vinnu framkvæmdarnefndarinnar verður ekki lokið fyrir 1. janúar 2009 eins og stefnt var að, m.a. í ljósi efnahagsástands þjóðarinnar og fjölmargra verkefna sem því tengjast, er með frumvarpi þessu lagt til að ákvæði 11. töluliðar ákvæðis til bráðabirgðalaga um almannatryggingar gildi áfram óbreytt og gildistímabil þess verði framlengt til 1. janúar 2010.

Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins voru liðlega 30% örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega með launatekjur í nóvember síðastliðnum eða um 4.700 einstaklingar og hafa þeir þannig ávinning af frítekjumarki á atvinnutekjur í formi hærri bótagreiðslna. Má vænta þess að jafnvel enn stærri hópur örorkulífeyrisþega hafi nýtt sér þetta tækifæri til að feta sig út á vinnumarkaðinn.

Frítekjumarkið felur því í sér aukið tækifæri til handa örorkulífeyrisþegum með þeim auknu lífsgæðum sem þátttaka á vinnumarkaði felur í sér fyrir lífeyrisþegana sjálfa og samfélagið í heild.

Þá má geta þess að Öryrkjabandalag Íslands hefur lagt áherslu á hækkun frítekjumarks í baráttunni fyrir bættum kjörum öryrkja og virka atvinnuþátttöku þeirra í samfélaginu og er þessi lagabreyting mjög í samræmi við áherslur þeirra. Þá er breytingin jafnframt í samræmi við þau markmið sem hugmyndir örorkumatsnefndar um starfshæfnismat og starfsendurhæfingu byggist á.

Virðulegi forseti. Ég hef fjallað um þær breytingar sem í frumvarpinu felast og undirstrika að í því eru ákvæði sem stuðla að áframhaldandi bættum kjörum öryrkja. Ég læt þessari yfirferð yfir efni frumvarpsins lokið og leyfi mér að leggja til að frumvarpinu verði vísað til hv. félags- og tryggingamálanefndar og til 2. umr.