136. löggjafarþing — 66. fundur,  22. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[13:51]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér við 3. umr. fjárlög fyrir árið 2009. Í þau tæpu sex ár sem ég hef setið á Alþingi Íslendinga þá verð ég segja að ég held að ég hafi ekki upplifað dapurlegri stund. Að fylgjast með því úrræðaleysi og þeim handahófskenndu vinnubrögðum sem ríkisstjórnin hefur viðhaft á síðustu vikum er vægast sagt mjög dapurlegt að horfa upp á, því að rétt eins og hv. þm. Magnús Stefánsson, sem var framsögumaður minni hlutans í þessu máli, benti á þá er þetta þannig, svo ég vitni orðétt til þess álits sem þingmaðurinn mælti fyrir, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin hefur haldið öllum þessum málum í fangi sér og skammtar Alþingi sínar lausnir og ákvarðanir, nánast tilviljanakennt, seint og illa. Það er mikill ábyrgðarhluti að allt þetta fólk sitji nánast aðgerðalaust meðan hamfaraástand hefur ríkt í efnahagsmálum þjóðarinnar. Björgunarsveitin var þannig látin bíða aðgerðalaus meðan þeir sem voru á slysstað voru nánast látnir sjá um sig sjálfir. Þessi framkoma ríkisstjórnarinnar gagnvart Alþingi og almenningi í landinu er í senn ólýðræðisleg og óþingleg. Ekki síst á erfiðleika- og óvissutímum er mikilvægt að virða lýðræðislegar grunnstoðir þjóðfélagsins.“

Hæstv. forseti. Þetta er kjarni málsins. Alþingi hefur setið hjá á undanförnum vikum þegar mestu efnahagshamfarir síðari tíma hafa dunið yfir þjóðarbúið. Ríkisstjórnin hefur sýnt hér algeran einleik og hefur litið á Alþingi Íslendinga sem eins konar afgreiðslustofnun fyrir þær ákvarðanir sem þessi þröngi hópur, þ.e. ríkisstjórnin, hefur vélað um í málefnum þjóðarinnar. Nú koma hæstv. ráðherrar í fjárlagaumræðunni og óska eftir tillögum frá stjórnarandstöðunni. Hvar vill stjórnarandstaðan skera niður? spyrja hæstv. ráðherrar. Hefði ekki verið nær fyrir hæstv. ráðherra að kalla stjórnarandstöðuna fyrr að þessu verki en núna á síðustu dögum desembermánaðar? Af hverju segi ég þetta, hæstv. forseti? Það hefur verið skoðun okkar framsóknarmanna lengi að hér þyrfti að mynda vettvang þar sem allir færustu aðilar í samfélaginu kæmu saman að borðinu til að skapa heildarlausnir í því erfiða árferði sem ríkir í samfélagi okkar.

Hæstv. forseti. Þegar stjórnarliðar segja að við framsóknarmenn eða stjórnarandstaðan hafi ekki komið með tillögur í þeim efnum að bæta stöðu mála og reyna að ná árangri á grundvelli samvinnu og samræðu, rétt eins og annar flokkurinn sem á aðild að ríkisstjórn boðaði í aðdraganda síðustu kosninga, þá höfum við gert það. Fyrri hluta októbermánaðar lagði þingflokkur Framsóknarflokksins fram tillögu til þingsályktunar, sem hv. þm. Guðni Ágústsson mælti fyrir á Alþingi, um að stofna samvinnu- og efnahagsráð Íslands. Sú tillaga gerði ráð fyrir að kalla saman forustumenn íslenskra stjórnmálaflokka, fulltrúa atvinnulífsins, launþega, sveitarfélaga, fjármálafyrirtækja, Bændasamtaka Íslands, sjávarútvegsfyrirtækja, ásamt helstu sérfræðingum á sviði efnahagsmála frá Seðlabanka Íslands og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Þessi vettvangur sem við framsóknarmenn mæltum fyrir í október strax í kjölfar bankahrunsins og töldum að þyrfti að koma saman hefur ekki verið kallaður saman og þingsályktunartillagan liggur reyndar enn hjá hv. efnahags- og skattanefnd og hefur ekki verið afgreidd þaðan. Ég held að öllum ætti að vera það ljóst og ég ætla að fullyrða það hér að hefðu menn komið saman og stundað samræðustjórnmál og nýtt samvinnu á þessum erfiðu tímum væri staðan með öðrum hætti en hún er í dag. Staðreyndin er sú að hæstv. ríkisstjórn hefur verið eini leikandinn í þeim aðgerðum sem stjórnvöld hafa brugðist við á síðustu mánuðum, tilviljanakenndum viðbrögðum og fálmkenndum. Því til vitnisburðar getum við nefnt að Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands, sem hefðu átt að eiga aðild að slíku samvinnu- og efnahagsráði Íslands, hafa oftsinnis gagnrýnt ríkisstjórnina, stjórnarmeirihlutann fyrir vitlausar ákvarðanir. Hefði ekki verið nær, hæstv. forseti, að kalla þessa aðila fyrr að borðinu?

Við framsóknarmenn höfum gagnrýnt fjárlagafrumvarpið og þá höfuðáherslu sem Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn eru með í því að skera niður gagnvart einstaka hópum. Það sem við vildum í byrjun október var að kalla saman helstu aðila í íslensku samfélagi til að mynda þjóðarsátt. Það þarf að mynda þjóðarsátt og ég vil meina að fyrsti vísirinn að þeirri þjóðarsátt sé kominn fram á Alþingi sem felst í því að lækka laun æðstu embættismanna ríkisins. Þar þarf að byrja á þeirri þjóðarsátt og síðan þarf að vinna sig niður í því að koma til móts við hrikalega alvarlegan aðsteðjandi vanda.

Við framsóknarmenn gerum okkur grein fyrir því að það þarf að fara í óvinsælar aðgerðir. Ég held að allir launamenn á almennum vinnumarkaði og hinum opinbera þurfi að taka á sig einhvers konar kjaraskerðingu, ég held að það sé óumflýjanlegt í ljósi þess ástands sem ríkir í samfélaginu en það þarf að gera eftir réttum leiðum og menn þurfa að byrja á réttum enda. Þess vegna hefði þurft að kalla þessa aðila saman að borðinu fyrir löngu síðan til þess að taka mikilvægar ákvarðanir. Það er staðreynd að útgjöld ríkisins vegna launa eru um 70%. Þess vegna hlýtur að þurfa að ná fram einhvers konar samkomulagi á hinum opinbera vinnumarkaði um að draga þar úr án þess að grípa þurfi til fjöldauppsagna, nógu slæmt er ástandið. Það hefur ekki verið gert og ekki hefur verið hlustað á tillögur framsóknarmanna í þessum efnum. Til merkis um það er að enginn stjórnarliði tók til máls þegar hv. þm. Guðni Ágústsson mælti fyrir þingsályktunartillögu okkar. Í raun og veru tók aðeins einn annar flokkur þátt í þeirri umræðu en það var Frjálslyndi flokkurinn með formann þess flokks, hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson, í broddi fylkingar.

Ég spyr, hæstv. forseti: Hefði ekki verið ráð að kalla fyrrnefnda aðila saman í októbermánuði síðastliðnum, fyrir rúmum tveimur mánuðum síðan? Ég segi jú. En þegar stjórnarliðar hlusta ekki og vilja ekki horfa á þær tillögur sem stjórnarandstaðan leggur fram og við framsóknarmenn höfum lagt fram þá er náttúrlega erfitt um vik. Það sem við gagnrýnum hér, hæstv. forseti, og gagnrýnum Samfylkinguna sérstaklega fyrir, jafnaðarmannaflokk Íslands, er að menn byrja ekki á þeim enda sem þeir hefðu átt að byrja á, að taka á málinu heildstætt og byrja á að lækka laun æðstu embættismanna ríkisins og fikra sig niður eftir stiganum í framhaldinu. Nei, þessi flokkur, Samfylkingin, byrjar á því í bandormi sem við ræddum í síðustu viku að skerða kjör aldraðra og öryrkja um 3,9–4,9 milljarða kr. og taka upp sjúklingagjald sem á að skila um 360 millj. kr. Og Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin stóðu að því að brjóta samkomulag gegn bændastéttinni þar sem greiðslur til bænda sem voru undirritaðir samningar eru skertar um 800–1.000 millj. kr.

Hæstv. forseti. Það er þessi nálgun sem við erum að gagnrýna í þessari umræðu sem er að mörgu leyti sárgrætileg. Enn og aftur tek ég fram að ég tel að grípa þurfi til óvinsælla aðgerða og ég er alveg til í að standa að slíku en það verður þá að vera eitthvert vit í því, hæstv. forseti, og það hefði þurft að vera búið að mynda einhverja þjóðarsátt um það hvernig að menn ætla að taka heildstætt á þessum vanda.

Ég gat ekki orða bundist þegar hv. þm. Guðbjartur Hannesson kom hér upp og sagði að Samfylkingin væri að gæta hagsmuna þeirra sem minnst mega sín og hagsmuna landsbyggðarinnar. Ég hef farið örfáum orðum um það hvernig komið er fram gagnvart öldruðum og öryrkjum en ofan á þessa 3,9–4,9 milljarða kr. höfðu kjör þessara hópa verið skert fyrr á árinu um 3,6 milljarða sem var lækkun á viðmiði í tengslum við gerð kjarasamninga. Það er því búið að skerða kjör aldraðra og öryrkja stórlega á þessu ári og því miður sýnist mér, miðað við hvernig framtíðarhorfurnar eru, að það verði meira um það hjá hæstv. ríkisstjórn að seilast í þá vasa. Ég gleymdi, hæstv. forseti, að taka með mér blað frá Félagi eldri borgara þar sem þessi forgangsröðun ríkisstjórnarinnar var hörmuð og í raun hefur Öryrkjabandalagið gert það líka.

Mig langar, hæstv. forseti, í ljósi þess að ég hef rætt þessi mál allítarlega í umræðu um bandorm ríkisstjórnarinnar og áður í fjárlagaumræðunni, að ræða um annað. Það eru áherslur Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins gagnvart landsbyggðinni — og ber nú í veiði þegar hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir gengur fram hjá. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur mælt fyrir því að sameina heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni og það ekkert smávegis. Heilbrigðisstofnanir frá Blönduósi allt austur á Langanes eiga að renna undir sama hattinn. Við erum þar að tala um heilbrigðisstofnanirnar á Blönduósi, Skagafirði, Siglufirði, Akureyri, Húsavík og alveg austur að Langanesi. Vita hv. stjórnarliðar eitthvað hvað þeir eru að samþykkja? Þetta hefur verið gert án þess að hafa nokkurt samráð við sveitarstjórnir á viðkomandi svæðum eða viðkomandi stofnanir. Ég ætla að minna hv. þm. Lúðvík Bergvinsson á að hér er um undirstöðustofnanir að ræða í viðkomandi samfélögum. Stofnanir sem er grundvöllur búsetu á viðkomandi stöðum. Og hvað ætla menn sér með þessum hagræðingaraðgerðum? Á að segja upp fólki í stórum stíl á þessum stöðum? Á að segja forstöðumönnunum upp? Eða hvað á að gera? Vita menn eitthvað hvað hæstv. heilbrigðisráðherra ætlar sér í þessu? Það er talað um sameiningu heilbrigðisstofnana á Vesturlandi og alveg að Hólmavík og Hvammstanga. Halda menn að þessi skilaboð frá ríkisstjórninni veki einhverjar væntingar hjá íbúum í þessum byggðarlögum um að í vændum sé mikil uppbygging á þessum stofnunum? Nei, þvert á móti.

Ég held, hæstv. forseti, að þarna eigi að fara að skera niður í samfélögum sem hafa búið við kreppu í 20 ár. Tóku ekki þátt í góðæriskreppunni en nú á að seilast í vasa í góðærinu sem olli kreppu í viðkomandi samfélögum vegna þess að gengi krónunnar var vitlaust skráð sem bitnaði á sjávarútveginum. Og ofan á þá kreppu sem þessi samfélög hafa gengið í gegnum á undangengnum 20 árum eiga þessi samfélög nú að taka þátt í því að hagræða, hugsanlega með blóðugum niðurskurði. Sömu samfélög eru líka skert í sínum tekjustofnum. Sveitarfélög sem hafa glímt við tekjuskerðingu á undangengnum 15–20 árum fá skerðingu á tímabundnu framlagi úr 1.400 millj. kr. niður í 1 milljarð sem þýðir um þriðjungs lækkun. Hvaða samfélög eru það sem barist hafa í bökkum við ná saman sínum efnahags- og rekstrarreikningum? Við erum að tala um Ísafjörð, Skagafjörð, Fjallabyggð, Dalvíkurbyggð, Norðurþing, Hornafjörð, Vestmannaeyjar og fleiri mætti nefna. Hvernig eiga þessi samfélög að standa undir grunnþjónustu fyrir borgara sína? Á að láta þessum samfélögum blæða enn meira en orðið er? Ég vil fá svör við því frá hv. stjórnarliðum hvernig menn horfa til þess að þau samfélög sem glímt hafa við viðvarandi samdrátt á undangengnum 20 árum eigi að taka við enn meiri samdrætti af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Þau skilaboð eru fólgin í fjárlagafrumvarpinu gagnvart íbúum í þessum byggðarlögum að nú eigi að ganga að heilbrigðisþjónustunni og að tekjustofnum viðkomandi sveitarfélaga og ég spyr, hæstv. forseti: Hafa stjórnarliðar sett það eitthvað niður fyrir sér hvaða áhrif það fjárlagafrumvarp sem við ræðum hér og unnið hefur verið í miklum flýti hefur á þessi samfélög og síðast en ekki síst á þá þjóðfélagshópa sem hvað verst standa í samfélaginu? Ég (Forseti hringir.) held því miður, hæstv. forseti, að ríkisstjórnin viti ekkert í hvaða vegferð hún er að halda.