136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

fjármálafyrirtæki.

409. mál
[14:27]
Horfa

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum nú mál 409, frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum. Mig langar að fara aðeins yfir málið en fyrst og fremst að hafa í huga að það er algjörlega nauðsynlegt fyrir okkur á þinginu að setja málið í samhengi við neyðarlögin frá því í október í fyrra sem og nóvemberlögin svokölluðu. Ég ætla að reifa málið og svo aðeins að greina frá því sem ég hef lært í samskiptum við kröfuhafa aðallega.

Í frumvarpinu eru lagðar til viðamiklar breytingar á XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki frá 2002. Þessi kafli fjallar um endurskipulagningu fjármálafyrirtækja, um slit þeirra og samruna við önnur fjármálafyrirtæki. Tilgangur frumvarpsins er m.a. sá að færa löggjöfina hér á landi betur í takt við tilskipun frá ESB nr. 24/2001. Kaflinn þarf að mæta þremur meginsjónarmiðum sem sett eru fram í tilskipuninni og þetta skiptir okkur miklu máli. Þessi sjónarmið eru: Í fyrsta lagi eining eða það sem á ensku er kallað Principal of unity, í öðru lagi algildi eða Principal of universality og í þriðja lagi jafnræðissjónarmið eða á ensku Principal of non-discrimination. Þessum sjónarmiðum er fylgt í frumvarpinu og þá með það í huga að tryggja algjört jafnræði innlendra og erlendra kröfuhafa fjármálafyrirtækjanna sem hafa starfsemi í fleiri en einu ríki á EES-svæðinu.

Þetta frumvarp þarf að mínu viti að standast próf um trúverðugleika gagnvart kröfuhöfunum. Því er rétt að skoða málið eins og það snýr við kröfuhöfum og setja það í samhengi neyðarlaganna, nr. 125 frá október 2008, og nóvemberlaga um fjármálafyrirtæki, nr. 129 frá 2008, þannig að þau lög sem nýverið hafa verið samþykkt séu höfð í huga við mat á frumvarpinu sem hér um ræðir.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að ákvæðum laga nr. 125/2008 og nr. 129/2008, þ.e. neyðarlögin eða nóvemberlögin svokölluðu, var ekki ætlað að gilda til frambúðar enda voru þau sett til að bregðast við óvenjulegu neyðarástandi sem enginn gat séð fyrir, hruni fjármálakerfis heillar þjóðar. Það ber einnig að hafa í huga að ofangreind lög frá október og nóvember 2008 voru samin og samþykkt á afar skömmum tíma til að ferli skilanefndar, sem kveðið var á um í neyðarlögunum, gæti stuðst við lagabókstaf. Til upprifjunar voru neyðarlögin samþykkt sama dag og frumvarpið kom fram. Lögin frá 14. nóvember, nr. 129, höfðu aðeins rýmri tíma þótt vissulega hafi hann einnig verið afar takmarkaður. Þar var, eins og í október, verið að bregðast við neyðarástandi.

Lögin fjölluðu aðallega um þrjá þætti, í fyrsta lagi heimild skiptastjóra þrotabús fjármálafyrirtækis til að annast áfram tiltekna leyfisbundna starfsemi þrátt fyrir afturköllun FME á starfsleyfi þess. Í öðru lagi heimild til að lengja fresti og auðvelda tilkynningar fyrir aðstoðarmann fyrirtækis sem veitt hefur verið heimild til greiðslustöðvunar. Í þriðja lagi ákvæði til bráðabirgða sem heimilar frestun fyrirtöku þrátt fyrir að greiðslustöðvun hafi verið veitt fyrir gildistöku laganna.

Lögin frá því í nóvember voru umdeild og beittu nefndarmenn meiri hluta þáverandi viðskiptanefndar sér fyrir því að hafinn væri undirbúningur að því frumvarpi sem nú er til umræðu. Strax í kjölfar nóvemberlaganna svokölluðu var hafist handa við að semja það frumvarp sem við ræðum nú því það var alveg ljóst að endurskoða þyrfti XII. kaflann algjörlega en til þess vannst ekki tími í nóvember.

Þegar um miðjan nóvember hófst því undirbúningur að heildarendurskoðun á XII. kafla laganna frá 2002 sem tæki einnig tillit til þess ástands sem hefði skapast á Íslandi. Frumvarpið sem hér um ræðir fjallar um nýjar reglur um slitameðferð fjármálafyrirtækja sem eru að miklu leyti sömu reglur og gilda um gjaldþrotaskipti. Skipuð verði slitastjórn sem hafi um flest sömu heimildir og skiptastjóri þrotabús. Þó gildir sú regla að slitastjórn hafi það að meginmarkmiði sínu að hámarka virði eigna fjármálafyrirtækja og þannig geti þurft tíma til þess að viðunandi verð fáist fyrir eignirnar. Ég fagna þessu sérstaklega vegna þess að þetta er beinlínis skynsamlegt í samhengi við það sem er að gerast, að það gefist tími til að fá hámarksvirði fyrir eignir. Í því samhengi er sérstök áhersla lögð á að lánardrottnar þeirra fjármálafyrirtækja sem í hlut eiga hafi tök á að gæta hagsmuna sinna, samanber sjónarmið ESB-tilskipunarinnar nr. 24/2001.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að gefin verði út innköllun þar sem kröfuhöfum gefst kostur á að lýsa kröfum sínum til slitastjórnar og að afstaða verði tekin til þeirra. Kröfuhafar geti gætt hagsmuna sinna við slitameðferð og geti borið ágreining um réttmæti krafna og ráðstafanir slitastjórnar undir dómstóla. Þá er gert ráð fyrir því að fjármálafyrirtæki geti hafið starfsemi á ný með samþykki FME ef eigendum verði greiddur hluti þeirra í fjármálafyrirtækinu. Einnig að slitastjórn geti leitað nauðasamnings við kröfuhafa og efnt hann og í framhaldi geti fjármálafyrirtæki hafið starfsemi með samþykki Fjármálaeftirlitsins eða eignir þess verði greiddar hluthöfum eða stofnfjáreigendum ef einhverjar eru. Þá er gert ráð fyrir að slitastjórn sé skylt að krefjast gjaldþrotaskipta á búi fjármálafyrirtækis.

Bráðabirgðaákvæðin eru í fjórum liðum og þar er einkum horft til þeirra fjármálafyrirtækja sem þegar eru í höndum skilanefnda og njóta greiðslustöðvunar. Þessi bráðabirgðaákvæði urðu helsta umræðuefni viðskiptanefndar og þeirra gesta sem komu á fund hennar enda er sátt um flest annað í frumvarpinu. Það var mikið rætt um breytingartillögurnar sem hv. formaður viðskiptanefndar hefur þegar greint frá og það er nákvæmlega þar sem helsta ágreiningsefnið er.

Virðulegi forseti. Grundvallaratriðið í allri umræðunni er að setja frumvarpið í samhengi við það sem áður hefur gerst og gæta trúverðugleika og jafnræðis. Trúverðugleiki, jafnræði kröfuhafa, algildi og eining eru prófsteinninn á frumvarpið og því er áhugavert að heyra viðhorf kröfuhafa gagnvart því. Það er ágætt að meta þá þætti sem þessir aðilar eru aðallega að velta fyrir sér í samhengi við frumvarpið. Helstu álitamál frá sjónarhorni kröfuhafa lúta að breytingartillögum meiri hluta viðskiptanefndar um svonefnt sólarlagsákvæði sem gilda ætti þá, ef það yrði að lögum, um starfsemi skilanefnda Glitnis, Kaupþings og Landsbankans.

Ég tók með mér nokkur erindi sem okkur nefndarmönnum í viðskiptanefnd bárust frá kröfuhöfum eða fulltrúum kröfuhafa en það ber einnig að hafa í huga að kröfuhafarnir eða fulltrúar kröfuhafa sem sitja kröfuhafafundi Glitnisbanka, Landsbanka og Kaupþings banka, þ.e. gömlu bankanna, eru mikið til sömu aðilarnir. Ég tel að jafnvel megi ná í yfir 70% af kröfuhöfum í gegnum 40 til 50 manns. Ég ætlaði aðeins að vitna í þetta atriði um sólarlagsákvæðið, sem er þetta umdeilda ákvæði um að skilanefndir skuli ljúka starfi innan sex mánaða frá því að frumvarpið verður að lögum. Við þetta ákvæði voru fyrirvarar sjálfstæðismanna, þeirra hv. þm. Péturs Blöndals, Birgis Ármannssonar, Árna Mathiesens og Jóns Magnússonar, við þetta frumvarp. Ég á sæti í viðskiptanefnd en sat ekki fundinn þegar þetta mál var afgreitt til 2. umr. vegna setu minnar í forsætisnefnd á sama tíma.

Til þess að vitna aðeins í það sem kom fram í athugasemdum kröfuhafa langar mig fyrst nota líkingamál sem kemur frá bandarískum aðila sem starfar fyrir lögfræðifyrirtækið Bingham og hann starfar fyrir hönd fjölmargra af stærstu skuldabréfaeigendum Kaupþings banka, ef ég skil rétt. Viðkomandi notaði það líkingamál að frá sjónarhorni kröfuhafa mætti lýsa ástandinu þannig að fyrir sex mánuðum hafi íslenskir skilanefndarmenn mætt til leiks. Þeir hafi ekki kunnað leikinn sem var spilaður þannig að í liði kröfuhafanna var fólk sem var kannski vant því hvernig staðið skuli að svona uppgjöri en það komu Íslendingar sem bæði voru að fóta sig á nýrri löggjöf, þ.e. neyðarlögunum og svo seinna nóvemberlögunum, en höfðu kannski ekki mikla reynslu af því að vinna í svona málum. Það má því ímynda sér fótboltaleik og það kemur nýtt lið inn á leikvöllinn sem kann ekki alveg reglurnar, þ.e. íslenska lið, en kröfuhafaliðið var tilbúið að kenna því þær. Fulltrúi kröfuhafa sagði að íslensku spilararnir hefðu lært fljótt, skilanefndarmennirnir, að vinna með kröfuhöfunum í þessum leik og smám saman fór þetta að fara frá undirbúningsfasa yfir í að setja einhvers konar heildarskipulag á starfsemina, og allir með sama markmið, það var að hámarka virði eignanna þannig að allir kæmu sem best út úr þessum málum. Þetta var í hag Íslendinga vegna þess að kröfuhafarnir sögðu: Já, við erum búin að missa mikið af fjármunum. Þið viljið ekki að við bæði missum mikið af fjármunum en líka allt álit á Íslendingum á sama tíma. Það væri auðvitað í hag okkar allra ef þeir sem misstu svo mikla fjármuni gætu haldið sáttir áfram í seinni hálfleik.

Þessi aðili lýsti líka seinni hálfleik: Eigum við núna í seinni hálfleik að fá nýtt lið inn á leikvöllinn? Á það nýja lið að þurfa að læra leikreglurnar upp á nýtt? Eigum við að þurfa að kenna nýju liði leikreglur? Þar að auki bættist við að leikreglurnar eru að breytast. Þetta fannst þeim óásættanlegt, þessum kröfuhöfum. Þeir sögðu beinlínis að frumvarpið gæfi það til kynna að ríkisstjórn Íslands hafi það grundvallarmarkmið að tefja fyrir lausn mála fremur en að leysa bankakrísuna á sanngjarnan hátt. Þessir aðilar krefjast þess, eða hvetja til þess, þeir krefjast einskis, þeir hvetja til þess að skilanefndin fái að starfa áfram vegna þess að ákveðið ferli var komið í gang. Kröfuhafar, sem eru þýsku fjármálafyrirtækin Deutsche Bank og Bayern LB, fulltrúi þeirra sagði að hann vildi ekki fá nýja einstaklinga sem þurfi að setja sig inn í málin. Þetta mundi valda þeim miklum vonbrigðum. Sömuleiðis að nýir einstaklingar sem koma að málum á þessu viðkvæma stigi gætu sett málið í upplausn.

Fulltrúi frá Morgan Stanley, ráðgjafi í Kaupþingi banka, að ég tel, og breska fjármálafyrirtækið Lloyds, sem er meðal stærstu lánveitenda bankans, þeir sögðu að hætta væri á að ferlið glataði trúverðugleika og með því að beita þessu sólarlagsákvæði á störf skilanefndanna eins og breytingartillaga meiri hluta nefndarmanna gerði ráð fyrir, að það væri verið að skipta út lykilmönnum, það mundi orsaka tafir og senda kröfuhöfum röng skilaboð um að við vildum tefja málið. Ég gæti haldið áfram vegna þess að fleiri blöð bárust nefndarmönnum — ekki bara mér heldur öllum nefndarmönnum, að ég tel — þar sem kröfuhafarnir lýstu því að þeir vildu ekki þurfa að þola það að nú kæmu allt í einu breyttar reglur og nýir menn og að það þyrfti að byrja upp á nýtt. Ég held að okkur sé hollt að hlusta á þetta. Auk þess kom fram gagnrýni frá fleirum um þetta ákvæði. Ég held að okkur sé nær að halda okkur við spilavöllinn eins og hann er, reyna að klára þetta í sátt við kröfuhafana eins og hægt er, reyna að hámarka virði eignanna þannig að það tapist sem minnst af fjármununum.

Hafandi sagt þetta er ég engu að síður mjög sátt við frumvarpið. Ég styð það að öðru leyti en hvað varðar umrætt ákvæði. Þess vegna fagna ég því sem fram kom í máli hv. formanns viðskiptanefndar, Álfheiðar Ingadóttur, að málið yrði kallað til nefndar milli 2. og 3. umr. þar sem við mundum ræða þetta ákvæði sérstaklega, ásamt reyndar öðru. Ég tel mjög mikilvægt að við gerum það og tel það skipta mjög miklu máli að þarna sé gengið í verkin og að við þurfum ekki að vera að setja ferli sem er komið vel af stað í uppnám.