137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[17:21]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Engu að síður stendur eftir spurningin sem ég varpaði hér fram: Ef við prófum í þessum fámenna þingsal að feta okkur áfram á þeirri braut að ná einhverri sátt um þetta kerfi, hvaða hugmyndir hafa stjórnarandstæðingar um að mæta áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sem felur í sér að núverandi fiskveiðistjórnarkerfi mismuni þegnum landsins?

Það var ekki að heyra á máli hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar að hann hefði einhverja sérstaka lausn fram að færa í þeim efnum aðra en þá að menn mundu kaupa veiðiheimild af þeim sem væru fyrir í greininni. Mér finnst eðlilegt að menn kaupi atvinnutækin af þeim sem fyrir eru í greininni, en veiðiheimildirnar eru eign þjóðarinnar og eiga ekki að ganga kaupum og sölum milli aðila í greininni.

Ég held að umræður eins og fram hafa farið hér í dag, svona mestmegnis, geti verið til þess fallnar að menn komist að einhverri niðurstöðu sem þjóðin getur sætt sig við í þessum efnum. Eins og ítrekað hefur komið fram í þessum ræðustól og í umræðunni í kosningabaráttunni er vilji til þess hjá stjórnarmeirihlutanum að reyna að skapa sem víðtækasta sátt um þá niðurstöðu sem verður í málinu. Þeirri viðleitni hefur verið mætt með fullyrðingum um að kerfið sé ekki fullmótað, að það sé bara fullt af óvissu. En það er einmitt hugmynd stjórnvalda að koma fram með meginhugmynd og hlusta á sjónarmið þeirra sem eru í greininni. (Forseti hringir.) Ekki bara útgerðarmanna, heldur allra hagsmunaaðila, fiskvinnslufólks, netagerðarmanna og (Forseti hringir.) sjómanna sem líka eiga mikið undir í þessum efnum.