137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

fjármálafyrirtæki.

33. mál
[16:22]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta viðskiptanefndar og ég ætla að lesa það hér upp, með leyfi virðulegs forseta:

„Minni hlutinn átelur hversu skammur tími gafst til að fjalla um málið í þinginu. Nefndin hafði málið einungis til meðferðar í tvo daga og ljóst er eftir umfjöllunina í nefndinni að um flókið og vandmeðfarið mál er að ræða. Nefndin fékk gesti á sinn fund og leitaði einnig eftir umsögnum en fáir umsagnaraðilar náðu að senda umsögn þar sem tímafrestur var afar knappur.

Að mati minni hlutans hafa ekki komið fram sannfærandi rök fyrir því að vinna málið í jafnmiklum flýti og gert var. Helstu rökin sem nefnd hafa verið fyrir flýtimeðferðinni eru launagreiðslur til fyrrum starfsmanna tiltekinna fjármálastofnana á uppsagnarfresti. Minni hlutinn hefur skilning á því sjónarmiði. Efasemdir hafa komið um að umrædd lagabreyting muni nægja til þess að hægt verði að greiða út launakröfur og því alls óvíst að því markmiði laganna verði náð. Ef málið hefði komið fyrr inn í þingið og skipulegar hefði verið unnið að því hefði mögulega verið unnt að finna á þessu lausn. Minni hlutinn lýsti sig tilbúinn að koma að slíkri vinnu og ýmsar hugmyndir voru reifaðar sem ekki náðist að skoða.

Það sem snýr að launagreiðslunum er hins vegar mjög lítill hluti þeirra fjármuna sem um ræðir. Stærsti hluti umsagnaraðila vöruðu við að samþykkja frumvarpið óbreytt og töldu að það gæti ógnað íslenskum hagsmunum á þessum óvissutímum vegna inngripa í þá slitameðferð sem nú er hafin. Alþekkt er að uppgjörsmál föllnu bankanna eru mjög viðkvæm, bæði innan lands og utan. Þess vegna er mikilvægt að öll inngrip verði mjög vel ígrunduð og vönduð. Minni hlutinn leggur ekki mat á það hvort fullyrðingar umsagnaraðila hvað þetta varðar standist. Til þess var tíminn of skammur.“

Virðulegi forseti. Það skal hins vegar alveg tekið fram að samstarfið í nefndinni hvað þetta mál varðar var með miklum ágætum og má hv. þm. Álfheiður Ingadóttir eiga það að hún gerði þetta lipurlega og við funduðum jafnmikið og við gátum frá síðasta miðvikudegi í tengslum við þetta. Það var hins vegar kallað eftir umsögnum og út af þessum skamma tíma gátu alls ekki allir sem við vildum fá umsagnir frá komið með þær og aðrir nefndu eðlilega að þeir væru að vinna þessa hluti í miklum flýti.

Það er með þetta mál hins vegar, svo að því sé til haga haldið, og þau mál sem við höfum rætt hér sem tengjast uppgjörum gömlu bankanna og samskiptum okkar við aðrar þjóðir og stundum deilur, að þetta er bara einn angi af því máli. Það er alveg augljóst að lagasetningin sem var afgreidd í apríl hefur ekki náð því markmiði sem til var ætlast. Það er alveg ljóst að vegferðin sem menn hófu hefur ekki orðið sú sem þeir lögðu upp með. Það er í okkar huga alveg skýrt að við erum ekki búin að fá heildarmyndina og þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru í viðskiptanefndinni og er þetta einungis partur af því. Í okkar huga væri þess vegna ábyrgðarlítið að greiða þessu atkvæði miðað við þær upplýsingar sem við höfum í tengslum við þetta mál. Vera má að meiri hlutinn hafi meiri upplýsingar. Ég vil, virðulegi forseti, ekkert fullyrða um það. En það er algjörlega ljóst í mínum huga að við þurfum að fá meiri upplýsingar og skýrari mynd af þessu máli öllu saman og við þurfum að fá það mjög hratt.

Ráðgerðir eru fundir við fulltrúa annarra þjóða strax í næstu viku. Ég vil þó taka fram að eftir því sem ég best veit er búið að boða til fundar í viðskiptanefnd og efnahags- og skattanefnd um þessi mál og ég vonast til þess að við tökum allan þriðjudaginn þegar þing kemur saman á ný til þess að fara yfir þessi mál því að umfjöllun um þetta mál núna á þessum tveim dögum, sem er búin að vera mjög mikil — ég efast um að við hefðum getað fundið fleiri tíma til að funda, alla vega ekki mjög marga — varpaði ljósi á það að við vorum hér rétt að skoða toppinn á ísjakanum og það vantar mjög mikið af upplýsingum um þetta mál.

Virðulegi forseti. Það sem helst hefur verið nefnt í tengslum við þetta, í það minnsta á síðustu metrunum, varðar launagreiðslur til ákveðinna starfsmanna á uppsagnarfresti. Við erum og erum áfram tilbúin til þess að leggja mikið á okkur til þess að leysa úr þeim málum. Það er mikilvægt. En því miður, miðað við þær umsagnir sem komu inn, er ekki einu sinni ljóst að þessi lagabreyting muni duga til þess að leysa það mál. Ég vona að það sé rangt. Ég vona að það verði þó til þess. En því verður að halda til haga að þau sjónarmið hafa komið fram. Það vantaði ekkert upp á það hjá minni hlutanum og að vísu hjá meiri hlutanum líka — ég bara þakka fyrir samstarfið hvað varðar þetta mál. Það var mjög gott — að nefndarmenn voru tilbúnir að leggja sig alla fram til þess að leysa úr því máli og öðrum og ekki er hægt að halda öðru fram en að menn voru til í að víkja öllu öðru til hliðar til þess að vinna í þessu máli. Missti ég til dæmis af heimsókn heilbrigðisnefndar til Landspítalans sem mér þótti mjög miður því að ég hef mikið dálæti á þeirri stofnun eftir að hafa kynnst henni sem heilbrigðisráðherra og þykir miður að hafa ekki getað hitt fólkið við það tækifæri. En það gefast önnur tækifæri til þess að fara yfir málefni þess spítala. Það er nú algjört aukaatriði, virðulegi forseti. Stóra málið er að þetta er enn eitt dæmið um að að við verðum að fá vandaða umfjöllun um þessi mál. Við verðum að fá upplýsingar. Ég treysti því að það verði gert í síðasta lagi á þriðjudaginn og að þá förum við vel yfir þau mál því að hér eru gríðarlegir hagsmunir í húfi. Það var algjörlega ljóst á þeim umsagnaraðilum sem komu fyrir nefndina og sendu inn umsagnir að þeir mátu það svo að hér væri mikið í húfi. Ég vona að aðvörunarorð umsagnaraðilanna eigi ekki rétt á sér og ég vona að þetta hafi verið óþarfa áhyggjur. En, virðulegi forseti, ég get ekki vitað það miðað við þá umfjöllun sem við höfum haft og það sem við erum búin að vinna fram til þessa og er það auðvitað miður.