137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

fjármálafyrirtæki.

33. mál
[16:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég kýs að nota mér þetta andsvarsform enda þó ég ætli ekki að andmæla hv. þingmanni sérstaklega. Ég vil taka undir það sem hann sagði um þann knappa tíma sem nefndin hafði til að fjalla um þetta mál. En ég vil líka nota tækifærið og þakka hv. nefndarmönnum í viðskiptanefnd góð störf og það að hafa sett þetta mál í algeran forgang eins og reyndar þingið óskaði eftir þegar það tók það hér á dagskrá með afbrigðum á þriðjudaginn var.

Ég vil, vegna þess að hér stendur í framhaldsnefndaráliti minni hluta viðskiptanefndar á þskj. 78, að alls óvíst sé að því markmiði laganna verði náð að unnt verði að greiða út laun um þessi mánaðamót og næstu tvenn til starfsmanna í uppsagnarfresti hjá þessum fjármálafyrirtækjum, þ.e. þá vil ég ítreka að það er þá ekki vegna þess að það sé hægt að kenna því um að það skorti lög sem heimila það heldur verður þá um að ræða skort á fjármagni, þ.e. að viðkomandi fjármálafyrirtæki treysti því ekki að geta greitt forgangskröfur eins og laun að öllu leyti.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu, virðulegi forseti. Mig langaði aðeins til að ítreka þakkir til nefndarmanna og koma þessu atriði á framfæri.