137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[23:39]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það get ég svo sannarlega. Ég get tekið undir með hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni að þetta nær ekki nokkurri átt og þetta er algerlega fráleitt. Því segi ég það að íslenska þjóðin á að fá að kjósa um það hvort hún er tilbúin að verja slíkum upphæðum í þetta mál eða ekki. Það sem sagt er í kostnaðarmatinu frá fjármálaráðuneytinu um ódýrustu nálgunina og dýrustu nálgunina — og ég ber mikla virðingu fyrir þeim sem hafa skrifað þetta og er ekki að setja út á mína gömlu vinnufélaga í fjármálaráðuneytinu á nokkurn hátt — er skrípatexti. Það er alger skrípaleikur að halda því fram að við getum farið í einhverja ódýra nálgun á þessu máli vegna þess að ef við færum í ódýrustu nálgunina sem er hérna, þá stendur: „Ódýrasta nálgunin væri einföld umsókn þar sem ekki væri lögð mikil áhersla á samningsmarkmið og samningsviðræður.“ Það sér hver heilvita maður hver niðurstaðan af slíkum samningaviðræðum yrði. Auðvitað þyrftum við að fara í dýrustu nálgunina vegna þess að við höfum svo ströng skilyrði, vegna þess að við höfum svo skýr markmið og höfum svo mikla hagsmuni af því að þetta verði gert rétt.

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að þetta nær engri átt og það verður að koma í veg fyrir þetta.