137. löggjafarþing — 39. fundur,  11. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:00]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hvað varðar ummæli hæstv. utanríkisráðherra um sjávarútvegsmálin held ég að minni mitt bresti ekki, en að fyrir nokkrum árum hafi komið fram að hann væri sammála þeim sjónarmiðum að erfitt væri að fá varanlegar undanþágur en að hægt væri að sníða mál þannig að við gætum búið við regluverkið sem Evrópusambandið byggi við í sameiginlegri fiskveiðistjórnarstefnu sinni. Nú kann að vera að mig misminni en ég man ekki betur en að svo hafi komið fram hjá ráðherranum, en þá var hann reyndar hv. þingmaður.

Varðandi evruna, þá er það alveg rétt sem hæstv. ráðherra segir að það sem hefur valdið því að ég hef ljáð máls á að eðlilegt sé að við sækjum um aðild að ESB snýr einmitt að þessum vandamálum sem við eigum í hvað varðar myntina. Ég tók það fram í ræðu minni að ég væri þeirrar skoðunar að menn gætu séð fyrir sér eitthvert fyrirkomulag í hagstjórn sem gerði það að verkum að hægt væri að búa við íslensku krónuna. Slíkt fyrirkomulag kallar á mikinn aga, mikla festu, og ég hef enn þá ekki séð, hvorki hjá Seðlabankanum né frá ríkisstjórninni, nein þau plön eða þá aðferðafræði sem menn geta byrjað að ræða til þess að skoða þann valkost. Ég vil sjá hvernig slíkur samningur liti út sem við gætum gert við Evrópusambandið. Hvort menn væru tilbúnir til þess að færa þær fórnir sem í honum fælust — að mínu mati alveg örugglega — sem snúa að sjávarútvegsmálum sérstaklega og hins vegar þá kosti sem gætu fylgt því að taka upp evruna. Á sama tíma segi ég reyndar að það er ekki gallalaust fyrirkomulag.

Reynist það ekki ganga eftir, sem ég tel mjög líklegt eins og hæstv. ráðherra benti réttilega á, stöndum við frammi fyrir ákveðnum valmöguleikum. Einhliða upptaka evru í andstöðu við ESB, sem ég tel að sé allt að því útilokuð, upptaka dollars sem þá væri einn kosturinn eða þá að menn haldi áfram að vinna með íslensku krónuna, en geri það ekki eins og gert var hér áður fyrr, það er þó ljóst í mínum huga.