137. löggjafarþing — 39. fundur,  11. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[13:05]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég skil vel að hv. þingmaður fari um víðan völl og sé vanstilltur venju fremur daginn eftir að Alþingi Íslendinga samþykkti neyðaraðstoð til sparisjóðanna sem hann gekk gegn af þvílíkri hörku ásamt félögum sínum að kostaði sparisjóðakeðjuna alla lífið. Ég skil vel að hv. þingmaður sé vanstilltur, (PHB: Það kemur þessu máli ekki við.) ómálefnalegur og fari um víðan völl þannig að varla sé hægt að greina orðaskil í því sem upp úr honum stendur. Hann talar um 10–15 aðskilin mál í einu andsvari. Við vorum að ræða byggðamál og ESB en þá vatt hann sér hingað og þangað, sneri út úr orðum mínum og sagði að ég væri að boða að allir bændur gerðust styrkjabændur. Ég dró þvert á móti upp þá mynd sem Evrópusambandið hefur byggt á, að efla atvinnulíf í sveitum þannig að það verði sjálfbært með því að byggja upp öflugt fjarskiptakerfi, samgöngukerfi, innviði og grunnstoðir samfélagsins sem landbúnaðarstefnu Sjálfstæðisflokksins hefur mistekist svo hrikalega að gera á Íslandi. Ætli sú landbúnaðarstefna hafi ekki farið nær því að gera bændur að sérstökum styrkjabændum en sú evrópska, landbúnaðarstefna þess hv. þingmanns sem gekk fram á orði í nafni frjálshyggju en á borði í allt öðrum málum bundinn á klafa þröngra sérhagsmuna? Afleiðingarnar blasa við öllum þótt hann vilji kenna öðrum um flest. En líttu þér nær, hv. þingmaður, og róaðu þig eftir ríkisaðstoðina við sparisjóðina.