137. löggjafarþing — 39. fundur,  11. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[13:49]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég virði fullkomlega skoðanir hv. þingmanns og henni ber að fara að samvisku sinni. En ég dreg í efa að hún geti haldið því fram að hún verði að taka þessa tilteknu afstöðu sem hún sagði vegna þess að hún hafi ekki sagt kjósendum sínum frá því fyrir kosningar vegna þess að Borgarahreyfingin sagði með mjög skýrum orðum hvaða leið hún vildi fara varðandi Evrópu fyrir kosningarnar. (Gripið fram í.) Mig langar (Gripið fram í.) þá að lesa upp lítið plagg sem er tekið af heimasíðu Borgarahreyfingarinnar. Það birtist þar 24. apríl, daginn fyrir kosningar. Það er grein eftir Þór Saari þar sem hann fjallar með svofelldum orðum um stefnu Borgarahreyfingarinnar. Ég tók það svo að hann væri að tala þar í orðastað hennar vegna þess að þar segir svona, með leyfi forseta:

„Stefna Borgarahreyfingarinnar í Evrópumálum er að ekki sé hægt að taka afstöðu til málsins nema að undangengnum aðildarviðræðum. Að þeim loknum mun aðildarsamningurinn verða kynntur öllum landsmönnum með beinum kynningum um allt land og með víðtækri umræðu og fjölmiðlaumfjöllun í allt að sex til tólf mánuði ef með þarf. Að þeirri kynningu lokinni yrði svo samningurinn borinn undir þjóðaratkvæði.

Þetta er skynsöm leið og í raun eina færa leiðin ef menn yfirhöfuð hafa áhuga á að velta fyrir sér framtíðarkostum Íslands og taka raunhæfa afstöðu til þeirra.“

Þetta er birt á heimasíðu Borgarahreyfingarinnar daginn fyrir kosningar. Þetta er nánast sú leið sem mörg okkar hér erum sammála. Og til að klykkja út þá birtir Þór Saari eftirfarandi tilvitnun í Herbert Spencer, með leyfi forseta:

„Til er sú afstaða sem virðir allan fróðleik að vettugi, hunsar öll rök og festir manninn ætíð í kviksyndi fáviskunnar ævina á enda. Þetta er sú afstaða að vera á móti einhverju án þess að hafa kynnt sér það.“