137. löggjafarþing — 39. fundur,  11. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:43]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Birgir Ármannsson er mjög vel að sér um stjórnlög. Mig langar til að spyrja hann hvort það sé ekki rétt skilið hjá mér að út af fyrir sig er þjóðaratkvæðagreiðsla um samning um Evrópusambandið óþörf. Á hinn bóginn er nauðsynlegt að breyta stjórnarskránni til þess að ganga í Evrópusambandið.

Er það ekki líka rétt skilið hjá mér — og ég held að það sé samkomulag allra sem talað hafa um þessi mál í mörg ár — að allir stjórnmálaflokkar segja: „Við ætlum með þennan samning í þjóðaratkvæðagreiðslu?“ Þess vegna finnst mér hv. þingmaður gera lítið úr því með því að segja núna að kannski muni sú þjóðaratkvæðagreiðsla ekkert hafa að segja og ég vil fá rök hans fyrir því.