137. löggjafarþing — 39. fundur,  11. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:45]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þó að mönnum finnist það ekki spennandi umræðuefni þá skiptir formið akkúrat aðalmáli. Ef þjóðaratkvæðagreiðsla um fullgerðan aðildarsamning fer fram áður en stjórnarskránni er breytt verður niðurstaðan aldrei nema ráðgefandi. Nýtt þing sem kosið yrði í sömu kosningum og stjórnarskrárbreyting á sér stað gæti tekið þveröfuga ákvörðun. Þingmenn verða þá auðvitað að gera upp við sjálfa sig hver fyrir sig hvaða afstöðu þeir taka á grundvelli sannfæringar sinnar, með eða móti aðild að Evrópusambandinu en þeir yrðu ekki með neinum formlegum hætti bundnir af niðurstöðunni.

Það er rétt sem hv. þingmaður sagði. Allir flokkar hafa lýst því yfir árum saman, trúlega allt frá gerð EES-samningsins, að aðild að Evrópusambandinu væri svo stór ákvörðun að hana þyrfti að bera undir þjóðina ef til þess kæmi. En það hefur enginn flokkur, nema kannski Samfylkingin, skuldbundið sig til að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu með því að fara í aðildarsamninga.