137. löggjafarþing — 42. fundur,  13. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:22]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal kom í andsvör við mig eftir framsöguræðu mína og var þá með heldur lengra tímaspan undir. Ég held að hann hafi verið að ræða um 60 ár þegar hann fjallaði um það þá. Ég svaraði þessari spurningu í andsvörum hér á föstudag. Ég sagði að mín skoðun væri hin sama og kemur fram í samþykkt Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Ég tel að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins. Ég tel að það sé mikilvægt að um þetta mál fari fram lýðræðisleg og opin umræða. Ég tel að það sé mikilvægt að málið verði leitt til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er mín sannfæring í þessu máli.

Ég hef líka þá sannfæringu að þjóðin eigi að ráða þessu og ég hef þá sannfæringu að það sé rétt að fara að vilja þjóðarinnar þegar hún kemur að borðinu og greiðir atkvæði um aðildarsamning, ef við komumst nú einhvern tíma á það stig í tilverunni að þá greiði hún atkvæði um það. Ég treysti mér til að segja að það sé ekkert slæm sannfæring að vilja fylgja vilja þjóðarinnar.